Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 17:32:36 (5532)

2001-03-12 17:32:36# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[17:32]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja. Frv. felur annars vegar í sér sameiningu Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar og hins vegar stofnun hlutafélags um hið sameinaða fyrirtæki.

Í dag starfar Hitaveita Suðurnesja á grundvelli laga nr. 100 frá 31. des. 1974 en Rafveita Hafnarfjarðar starfar á grundvelli reglugerðar sem staðfest var 16. sept. 1939. Í lögum um Hitaveitu Suðurnesja er kveðið á um eignarhald og rekstrarform og því er nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um fyrirtækið svo sameining og stofnun hlutafélags um reksturinn geti orðið að veruleika. Að beiðni Hitaveitu Suðurnesja samdi iðnrn. frv. það sem hér er mælt fyrir.

Hitaveita Suðurnesja og ýmis sveitarfélög á suðvesturhorni landsins hafa á undanförnum árum tekið upp samstarf á ýmsum sviðum orkumála. Þannig undirrituðu Hitaveita Suðurnesja, Hafnarfjarðarbær, Kópavogsbær, Garðabær og Bessastaðahreppur samkomulag í október 1998 þar sem lýst er yfir áhuga á að kanna möguleika á samstarfi og samvinnu varðandi nýtingu jarðhita og aðra alhliða samvinnu á sviði orkumála. Í athugasemdum við frv. er nánar vikið að samkomulagi þessu.

Stjórn Hitaveitu Suðurnesja átti viðræður við Hafnarfjarðarbæ um sameiningu Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar. Samþykktu sameigendur fyrirtækisins nýverið áætlun stjórnar Hitaveitu Suðurnesja og Hafnarfjarðarbæjar um samruna fyrirtækjanna. Samrunaáætlunin gerir ráð fyrir að fyrirtækin verði sameinuð undir nafni Hitaveitu Suðurnesja og að Hafnarfjarðarbær eignist 1/6 í sameinuðu fyrirtæki. Eignarhlutur núverandi eigenda Hitaveitu Suðurnesja breytist sem þessu nemur og verður hlutur ríkissjóðs 1/6. Við útreikninga á eignarhlutföllum var miðað við verðmat Kaupþings á fyrirtækjunum auk ýmissa aðgerða og ráðstafana í tengslum við sameininguna.

Breytingar á rekstrarformi raforkufyrirtækja hafa verið mjög til umræðu undanfarin ár og skoðanir skiptar um ágæti þess að ráðast í slíkar breytingar. Árið 1996 var skipuð sérstök viðræðunefnd eignaraðila að Landsvirkjun um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki fyrirtækisins. Urðu eignaraðilar sammála um að fyrir 1. janúar 2004 skyldi endurskoða sameignarsamning um Landsvirkjun, m.a. hvort ástæða væri til að stofna hlutafélög um Landsvirkjun.

Á 122. löggjafarþingi lagði þáv. iðnrh. fram till. til þál. um framtíðarskipan raforkumála sem tekin var til umræðu og var afgreidd úr hv. iðnn. en hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Í tillögunni var m.a. lagt til að rekstrarform raforkufyrirtækja sem ríkið ætti eignarhlut í yrði yfirfarið.

Nýverið var skipuð viðræðunefnd sem hefur það hlutverk að ganga til viðræðna við fulltrúa eigenda Norðurorku um hugsanlega sameiningu Rariks og Norðurorku. Í störfum sínum skal nefndin miða við að stofnað verði hlutafélag um rekstur hins sameinaða fyrirtækis í samstarfsumhverfi nýrra raforkulaga.

Þá hef ég lagt fram í þinginu frv. til laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða. Á næstunni hyggst ég leggja fram frv. til raforkulaga sem kveður á um breytt skipulag raforkumála. Í tengslum við breytingarnar sem það felur í sér er eðlilegt að skoðað verði hvort rétt sé að breyta rekstrarformi orkufyrirtækjanna. Í samrunaáætlun Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar er gert ráð fyrir að Hitaveita Suðurnesja verði gerð að hlutafélagi. Hlutafélagavæðing byggir á þeim fyrirvara að skattalegt jafnræði náist á við önnur orkusölufyrirtæki með hlutafélagsformi. Af þessum sökum er í frv. gert ráð fyrir að nýtt hlutafélag njóti sömu skattalegu stöðu og Hitaveita Suðurnesja nýtur nú. Þess ber hins vegar að geta að í tengslum við gerð frv. til raforkulaga, sem felur í sér breytingu á skipulagi raforkumála, hefur af hálfu fjmrh. verið skipuð nefnd sem skoða á skattalegt umhverfi orkufyrirtækja í tengslum við þessar skipulagsbreytingar.

Í frv. er að öðru leyti gert ráð fyrir að hlutafélagið taki við öllum eignum, réttindum, skyldum eða skuldum og skuldbindingum Hitaveitu Suðurnesja eftir sameininguna og að réttarstaða fyrirtækisins haldist óbreytt að öðru leyti en því sem rekja má til breytinga á rekstrarformi. Þannig er gert ráð fyrir að hlutafélagið yfirtaki einkarétt þann sem Hitaveita Suðurnesja og Rafveita Hafnarfjarðar hafa í dag. Loks er gert ráð fyrir að starfsmenn fyrirtækjanna eigi rétt á sambærilegum störfum hjá hinu nýja félagi.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.