Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 17:41:14 (5535)

2001-03-12 17:41:14# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[17:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Á undanförnum dögum höfum við rætt um kísilgúrsjóðinn mikilfenglega, sem eru nánast engir peningar í, kannski 4--5 millj. Síðan höfum við rætt um Orkubú Vestfjarða og sérlög um skattlagningu þess og einkaleyfi. Nú erum við að ræða um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, sérlög um það og enn ein lög um skattfrelsi. Fyrirtækið á að njóta skattfrelsis eins og sveitarfélög. Það stendur hér í 14. gr., með leyfi forseta:

,,Um skyldu Hitaveitu Suðurnesja hf. til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt sem um skyldu sveitarfélaga er slíkan rekstur hafa með höndum. Hitaveita Suðurnesja hf. skal undanþegin stimpilgjöldum.``

Þannig er enn ein reglan búin til. Allt þetta þurfa lögfræðingar að læra, allt þetta þarf atvinnulífið að hafa í huga og allt þetta þarf að skoða í hvert einasta skipti. Þó höfum við sjálfstæða lagasetningu um hlutafélög.

Öll þessi flækja kostar peninga. Hún kostar óhemju við samningsgerð og kostar óhemju fyrir allt þjóðfélagið. Ég vil undirstrika, herra forseti, að við reynum að hafa lagasetninguna einfalda þannig að atvinnulífið þurfi ekki að kosta svo miklu til að skoða hvern einasta krók og kima í lagabókinni, út og suður um hvert einasta smáfyrirtæki sem ríkissjóður er hluthafi í eða hefur einhvern tíma verið hluthafi í.