Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 18:45:32 (5545)

2001-03-12 18:45:32# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[18:45]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki þennan áherslumun sem hv. þm. vill draga fram eða telja vera í þeim gögnum sem hér liggja fyrir. Það er alveg ljóst að eigendur Hitaveitu Suðurnesja og væntanlegs sameinaðs fyrirtækis Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar telja að með sameiningunni verði fyrirtækið öflugra og skilvirkara og muni ná betri hagkvæmni í starfseminni. Þess vegna muni takast að lækka raforkuverð í Hafnarfirði eins og greint hefur verið frá um 18% sem er munur verðsins í Hafnarfirði og á Suðurnesjum í dag og samt sem áður skila nægum hagnaði til þess að halda áfram að byggja upp fyrirtækið og skila eigendum þess arði sem er endurgjald fyrir það fé sem þeir hafa lagt í fyrirtækið.