Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 18:48:10 (5547)

2001-03-12 18:48:10# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[18:48]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Á liðinni öld byggðu Íslendingar upp öflugt raforkukerfi. Það hvílir á nokkrum meginstólpum. Langstærstur þessara stólpa er Landsvirkjun sem framleiðir yfir 90% af allri raforku í landinu. Aðrir stólpar eru þarna einnig og sumir stórir; Rarik sem gegnir veigamiklu hlutverki í að dreifa raforku til neytenda og síðan eru einstakar orkuveitur til viðbótar.

Við uppbyggingu á þessu kerfi var það haft að leiðarljósi að veita þjónustu og það sjónarmið hefur verið ríkjandi allt fram á þennan dag að það beri eftir því sem unnt er að kappkosta að hafa orkuverð jafnt til allra landsmanna. Þetta er það sjónarmið sem hefur verið ríkjandi á Íslandi á meðal Íslendinga almennt. Ég hef trú á því að meirihlutavilji sé fyrir þessu í landinu. Innan raforkukerfisins hefur hins vegar verið talsverð togstreita og ekki síst hjá eignaraðilum sem koma að þessu kerfi. Menn minnast þess fyrir fáeinum árum þegar Reykvíkingar fóru t.d. að leggja auknar áherslur á að fá greiddan arð út úr Landsvirkjun, nokkuð sem hefur valdið pólitískum deilum, nokkuð sem ég harmaði fyrir mitt leyti því að ég hef litið á orkuveiturnar, Landsvirkjun og orkuveiturnar, sem sameign landsmanna. Við sitjum ekki öll við sama borð hvað þetta snertir. Sumir búa á heitum svæðum, aðrir köldum en ég held að hið almenna sjónarmið hafi verið að við værum ein þjóð í einu landi. Þetta væru sameiginlegar auðlindir sem við ættum að nýta sameiginlega.

Þetta sjónarmið er hins vegar víkjandi nú um stundir, ég held ekki á meðal landsmanna almennt en á meðal ráðamanna, á meðal þeirra sem stýra för er þetta sjónarmið því miður víkjandi.

Hv. þm. Árni R. Árnason benti réttilega á áðan að orkuveiturnar og sú starfsemi sem væri rekin á þeirra vegum væri að breytast í hrein viðskipti á samkeppnisgrunni frá þessari þjónustuhugsun yfir á viðskiptagrunn og það er engin tilviljun að þetta er að gerast. Þetta byggir á tilskipun sem kemur utan frá. Hún kemur frá Brussel. Hún er skammstöfuð 96/92/EC. Þetta er tilskipun Evrópusambandsins um breytta skipan í raforkumálum. Hugsunin þar að baki er sú að markaðsvæða þetta kerfi, að aðgreina framleiðslu, sölu og dreifingu raforkunnar. Þótt það segi í 4. gr. þessa frv. að Hitaveita Suðurnesja ætli að sinna þessum hlutverkum öllum þá mun fyrirtækið verða að greina á milli þessara þátta til að hlíta þeim reglum sem Evrópusambandið setur okkur.

En er það óskaplega gott eða hagkvæmt að fara út á þessa braut? Sannast sagna undraði mig hve margir sem hér töluðu dásömuðu markaðsvæðinguna og viðskiptahagsmunina sem eru nú að koma inn og sögðu að þetta mundi leiða til góðs. Ég hef miklar efasemdir um að svo sé og ég byggi efasemdir mínar á reynslu annarra þjóða sem hafa farið út á þessa braut.

Flestir hafa eflaust kynnt sér það sem er að gerast í Kaliforníu nú um stundir og e.t.v. hafa einhverjir lesið greinar sem birtust í Observer og fleiri ritum, einnig hér á landi um reynslu Bandaríkjamanna á Long Island. Þar hafði raforkukerfið allt verið einkavætt og undirselt þessum yndislegu sjónarmiðum um viðskipti og samkeppni. Það leiddi til þess að fyrir nokkrum árum, ætli það hafi ekki verið 1997 eða 1998, var raforkuiðnaðurinn á Long Island þjóðnýttur. Hverjir skyldu hafa gert það og hvers vegna? Það voru hægri sinnaðir repúblikanar sem stóðu fyrir því og þeir gerðu það að kröfu neytenda, bæði heimilanna og fyrirtækja vegna þess að þarna hafði skapast einokun á sviði sem allt samfélagið þurfti að geta reitt sig á.

Mér er minnisstætt þegar ég heimsótti Vestfirði ekki alls fyrir löngu og fékk tækifæri til að hlýða á fyrirlestra talsmanna frá Orkubúi Vestfjarða. Ég spurði hvort þeir teldu þær breytingar sem fyrir dyrum stæðu í þessa veru, að aðgreina framleiðsluna, dreifinguna og söluna, til góðs. Svarið var mjög afdráttarlaust. Nei. Hverjir hagnast þá? Orkubú Vestfjarða? Nei, við teljum að þetta sé verra fyrir Orkubú Vestfjarða. Notendur á Vestfjörðum? Nei, við teljum að þetta sé heldur óhagkvæmara fyrir þá og geti orðið dýrara. Hvers vegna í ósköpunum eruð þið þá að þessu? Vegna þess að ríkisstjórnin fyrirskipar og hún er að fara að tilmælum sem hún undirgekkst mótmælalaust frá Brussel. Svona gengur þetta fyrir sig. Síðan safnast allir saman og klappa mikið og mæra markaðsvæðinguna og hin frjálsu viðskipti þótt í reynd skorti öll önnur rök en hráa hugmyndafræðina sem býður mönnum að framkvæma á þennan veg.

Þessi tilskipun Evrópusambandsins tók gildi í sumar hér á landi og mun koma til framkvæmda í áföngum, hún tók gildi 1. júlí árið 2000 og mun síðan taka gildi eins og í Evrópusambandinu öllu. En þetta er náttúrlega bara einn áfangi á þeirri vegferð sem ríkisstjórnin hefur haldið með þjóðina og það verður sennilega sagt eins og sagt var þegar flugvöllunum var lokað að það væri gert til að styrkja flugsamgöngur eða þegar pósthúsunum var lokað í Skagafirði. Þá sagði Framsfl. að það væri sérstaklega til að styrkja póstdreifinguna í Skagafirði og eins er þetta væntanlega til að styrkja og bæta aðstöðu landsmanna allra hvað varðar raforkuna. Eina ferðina enn eru menn byrjaðir að kveða öfugmælavísurnar. En ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst, herra forseti, til að þessi sjónarmið kæmu fram við umræðuna.