Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 18:57:12 (5548)

2001-03-12 18:57:12# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[18:57]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég finn mig knúna til þess að fara í andsvar við hv. þm. Ögmund Jónasson vegna þess hvernig hann lagði mál sitt upp. Þingmaðurinn verður eins og ég og ýmsir fleiri að horfa til þess sem þó kemur frá Evrópusambandinu og hefur reynst okkur gott. Neytendalöggjöf, samkeppnislöggjöf, ýmislegt sem menn töluðu ekki svo mikið um þegar við urðum hluti af Evrópska efnahagssvæðinu, hefur þegar upp er staðið e.t.v. reynst okkur notadrýgra en flest það sem þá var talað um og ég er ein þeirra sem tel að það eigi við í þessu tilfelli. Ég tel að það sé gott ef hægt verður að koma á samkeppni í orkugeiranum á Íslandi. Ég tel að það sé gott ef kaupstaðirnir úti á landi verða ekki settir einir eftir til þess að greiða hátt orkuverð og greiða þar með niður þá jöfnun sem Rarik stendur fyrir úti á landi. Ég tel að það sé gott ef lögunum um Landsvirkjun verður breytt þannig að það verði ekki þeirra fyrsta hlutverk að sjá stóriðju fyrir orku eins og er í dag en auðvitað er ekki hægt að ætla einu fyrirtæki slíkt þegar það er komið í samkeppnisumhverfi. Ég tel að með þessu muni skapast allt aðrar forsendur bæði í þeim efnum og öðrum varðandi það hvernig við horfum til þessara mála. Ég tók eftir því að dæmin sem hv. þm. tók voru ekki frá Evrópusambandinu þegar hann talaði um breytingar í orkumálum, þau voru frá Ameríku en þar gilda ekki tilskipanir Evrópusambandsins eins og við vitum.

Reynslan í Evrópu er hins vegar sú að þar hefur raforkuverð til neytenda lækkað eftir að samkeppnin komst á. Ég á von á því að það geti gerst hér einnig og að fyrirtæki á Íslandi, eins og það fyrirtæki sem við erum að tala um frv. um, verði til þess hæf að taka þátt í samkeppni sem tryggi lægra verð til neytenda en er í dag.