Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 19:10:30 (5557)

2001-03-12 19:10:30# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[19:10]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. átti erfitt með að átta sig á ræðu minni þá held ég að ég geti sagt það sama núna, að ég átti erfitt með að átta mig á þessu andsvari.

Hv. þm. telur að ég hafi lagt upp með að hrósa frv. Ég hóf ræðu mína á því að rekja hvernig uppbygging á raforkukerfi Íslendinga hefði gengið fyrir sig, hvaða sjónarmið hefðu verið ríkjandi og hvaða áherslubreyting væri að eiga sér stað og hvers vegna hún væri. Ég gagnrýndi hana. Þetta var meginstefið í ræðu minni.

Hv. þm. spyr hvort ég telji það ekki vera til góðs að sameina þær veitur sem hann nefndi og leggur áherslu á samvinnu. Það var þungamiðjan í máli mínu, að leggja áherslu á samvinnu. Ég hef hins vegar horft til samfélagsins alls. Ég horfi til Íslendinga allra og Íslands alls og legg áherslu á að við séum ein þjóð í einu landi. Ég hef viljað styrkja þetta kerfi sem mér finnst að við eigum öll í sameiningu og þær orkulindir sem tilheyra allri þjóðinni. Mér finnst það vænlegri kostur og vænlegri leið. Ég legg áherslu á samvinnu fremur en samkeppni á þessu sviði. Ég held að það muni þegar upp er staðið leiða til einokunar og mismununar sem mér finnst óásættanleg.