Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 19:14:42 (5560)

2001-03-12 19:14:42# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[19:14]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið jákvæð. Ég skil það svo að hv. þm. sem hér hafa tekið til máls styðji þetta frv. Ég vil trúa því að hv. þm. Vinstri grænna geri það líka þó að þeir hafi verið með ákveðnar athugasemdir og spurningar. Reyndar var ræða hv. þm. Ögmundar Jónassonar meira um raforkukerfið almennt og mér finnst að sú umræða eigi betur við þegar ég mæli fyrir nýju raforkulagafrv. fremur en við þessa umræðu.

Ég er mjög ósammála mörgu í máli hans. Ég tel að mikill misskilningur hafi falist í mörgu sem hann sagði, sérstaklega í sambandi við raforkukerfið í Kaliforníu sem mikið hefur verið til umfjöllunar. Það er ekki út af einkavæðingu sem þau vandamál komu upp heldur einmitt vegna þess að frelsið náði ekki til beggja enda. Það er allt of langt mál til að fara út í núna þannig að ég ætla ekki að gera það. En engu að síður vil ég láta koma fram að mér finnst að þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. þurfi skýringa við og kalli á viðbrögð en ég kýs að gera það síðar.

Í sambandi við þá áherslu og þann áhuga sem kom fram hjá nokkrum hv. þm., um að ríkið hefði átt að selja sinn hlut í fyrirtækinu, vil ég segja að það eru mjög eðlileg sjónarmið. Reyndar býst ég við að að því komi að ríkið selji þennan hlut þó að ekki hafi verið talið rétt að gera það einmitt á þessum tímapunkti. Við bara sjáum til hvað setur.

Ég vil líka að það komi fram að skoðun mín er sú að það hafi ekki og muni ekki skapast fordæmi þó að einhverjar krónur sem fást fyrir Kísiliðjuna verði notaðar til atvinnuuppbyggingar á því svæði. Þar með hefur ekki verið tekin ákvörðun um slíkt til allrar framtíðar hvað varðar sölu ríkisins á eignarhlut í fyrirtækjum. Það hlýtur náttúrlega að fara eftir aðstæðum.

Mér fannst margt mjög athyglisvert koma fram hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, m.a. varðandi arðgreiðslur fyrirtækja og hvernig þær samrýmdust ákvæðum í sveitarstjórnarlögum. Ég geri mér grein fyrir að það atriði er dálítið í lausu lofti eins og er og þarf að taka á því enda er unnið að því. Hvort sem það verður gert á þessu þingi eða því næsta þá veit ég að þar er um að ræða mál sem þarf að lögfesta þannig að enginn vafi leiki á rétti sveitarfélaganna í þeim efnum.

Í sambandi við samanburðinn sem hér var gerður á því frv. sem hér er til umfjöllunar og frv. um Orkubú Vestfjarða þá vil ég segja að það er náttúrlega erfitt að bera þessi tvö mál saman. Þau eru mjög ólík en eiga það þó sameiginlegt að þau eru bæði flutt að beiðni viðkomandi sveitarfélaga. Málin eru hins vegar ólík að því leyti að frv. um Orkubú Vestfjarða var m.a. flutt til að taka þar á ákveðnum vandamálum. Ég vil þó halda því til haga að það er ekki einungis til að taka á vandamálum vegna félagslega íbúðakerfisins heldur á skuldastöðu sveitarfélaganna almennt. Það er talað um að lítill hluti fari til þess að rétta af vanskil vegna félagslega íbúðakerfisins og hugmyndin sé sú að taka aðeins af kúfinn, ef svo má segja.

Mér finnst ekki ástæða til þess að orðlengja þetta. Mér finnst ánægjulegt hversu góðar viðtökur frv. hefur fengið og ég reikna með því að það muni ekki taka langan tíma að afgreiða það frá hv. Alþingi, enda er það mikilvægt vegna hagsmuna sveitarfélaganna.