Reykjavíkurflugvöllur

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 13:31:44 (5564)

2001-03-13 13:31:44# 126. lþ. 87.94 fundur 374#B Reykjavíkurflugvöllur# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Fyrir dyrum stendur kosning hjá Reykjavíkurborg varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Óli Tótu var sjómaður sem fórst í aftakaveðri suður af landinu fyrir mörgum árum. Ég minnist hans vegna þess að hann velti oft fyrir sér notkun og túlkun orðsins vinarþel, taldi reyndar að vinarþel væri orð sem ekki væri hægt að þýða á erlent mál.

Vinarþel er grundvallaratriði fyrir Íslendinga til að geta búið í sátt og samlyndi í litlu landi, dreifbýlu og erfiðu landi á margan hátt. Við þurfum að leggja áherslu á að rækta vinarþel meðal landsmanna.

Sú kosning sem fyrir dyrum stendur hjá Reykjavíkurborg er ekki til að stuðla að vinarþeli meðal landsmanna í heild, hvorki landsbyggðarmanna út af fyrir sig né höfuðborgarbúa út af fyrir sig, hvað þá í heild. Reykjavíkurborg hefur ákveðið forskot sem höfuðborg. Þar hefur verið fjárfest í skólum, menningarstofnunum, sjúkrahúsum og mörgum stólpum samfélagsins vegna stöðu og skyldu höfuðborgar Íslands. Forskotið hefur nýst höfuðborginni á margan hátt til tekna og uppbyggingar umfram önnur byggðarlög landsins.

Ein af skyldum höfuðborgarinnar er að sinna samgöngumálum, sinna aðgengi að höfuðborginni til beggja átta, bæði til og frá. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni hefur verið höfuðsamgöngumiðstöð Íslands um áratuga skeið, verið lykill landsbyggðarinnar að höfuðborg sinni og gagnkvæmt frá höfuðborg til landsbyggðar.

Með því fyrirkomulagi sem nú á að hafa, í ljósi svokallaðs fulltrúalýðræðis, lít ég svo á að í raun sé verið að sparka í þann sem á hallar. Landsbyggðin á undir högg að sækja. Hún berst í bökkum við að halda fjárfestingum í verðgildi, halda í atvinnu, halda í menningu og þess vegna skýtur það skökku við að stóri bróðir í samfélaginu, sjálf höfuðborgin, skuli bjóða upp á kosningar og umræðu eins og nú er til þess að rugga bátnum, skapa óvissu, óöryggi, tortryggni og úlfúð. Það ber að harma í þessari málsmeðferð.

Forsvarsmenn höfuðborgarinnar hafa túlkað það svo að Vatnsmýrin væri dýrasta land Reykjavíkur. Reykjavík hefur úr að spila 30 þús. hekturum. Flugvöllurinn tekur 130 hektara. Það er öll spildan sem um er að ræða. Menn hafa látið í veðri vaka að eina vitið væri að byggja í Vatnsmýrinni. Allt annað séu úthverfi sem séu ljót, sem ekki séu boðleg og íbúum borgarinnar til vansa. Þannig rekst hvað á annars horn í þessum málflutningi.

Deilan og vangavelturnar snúast annars vegar um peninga og hins vegar um fólk. Hvort við eigum að sinna skyldum okkar í landinu með tilliti til fólksins eða stilla verðmiðum á ákveðna landskika og láta það ráða ferðinni. Við sem þurfum að hugsa um alla landsmenn í einum pakka hljótum að krefjast þess að hugsað sé um fólkið í heild, ekki verðmiða á spildum, hvort sem þær eru í Vatnsmýrinni eða á öðrum fýsilegum stöðum í landinu.

Við skulum láta liggja á milli hluta vörnina á vatnasviði Tjarnarinnar sem er ein af perlum Reykjavíkur. Vatnasvið Tjarnarinnar liggur í skjóli Reykjavíkurflugvallar og byggist á því vatnasvæði sem þar er með yfir 20 tegundum fugla sem verpa á flugvallarsvæðinu.

Við skulum horfa á staðreyndir eins og þær að 460 þús. farþegar fara um Reykjavíkurflugvöll á ári. Þar af eru innan við 10% erlendir ferðamenn þannig að þarna er um að ræða hagsmuni Íslendinga í heild. Stórkostlegar tekjur höfuðborgarinnar af atvinnusköpun tengdri vellinum beint og óbeint, af líklega 6--7 þús. störfum, eru upp á milljarða kr. Það ætti þess vegna ekki að þurfa að deila um þessa hluti og tala um það í alvöru að skoða möguleika á því að lengja ferðatíma á Íslandi og hækka kostnað hjá þeim sem veikar standa í þjóðfélaginu fremur en þeim sem betur mega sín í þéttbýlinu hér við Faxaflóa. Það ætti ekki að þurfa að ræða um málin á þeim nótum.

Undirskrift borgarstjóra um uppbyggingu vallarins er ársgömul. Þess vegna er hjákátlegt að taka upp kosningu eins og hér er um að ræða. Ég kem að því í ræðu minni á eftir.