Reykjavíkurflugvöllur

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 13:42:37 (5566)

2001-03-13 13:42:37# 126. lþ. 87.94 fundur 374#B Reykjavíkurflugvöllur# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[13:42]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er afar brýnt að allir landsmenn, ekki bara Reykvíkingar, geri sér ljóst að ef niðurstaðan í atkvæðagreiðslunni á laugardaginn kemur verður að flugvöllurinn eigi að fara úr Vatnsmýrinni þá er það ekki sjálfkrafa atkvæðagreiðsla um að hann flytji til Keflavíkur. Það er óskammfeilni af hæstv. samgrh. að rugla fólk með slíku og reyna með hótunum að hafa óeðlileg áhrif á hvernig Reykvíkingar greiða lýðræðislega atkvæði um byggðaþróun í framtíðinni í bæjarfélagi sínu.

Vatnsmýrin er afar þýðingarmikil í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins og hefur geysilega þýðingu fyrir farsæla byggðaþróun, lífskjör, atvinnuuppbyggingu, ferðamannaiðnað og blómlegt mannlíf í miðborginni.

Athyglisvert er að skoða ábendingu hagdeildar ASÍ um mikinn þjóðhagslegan ávinning af flutningi vallarins. Reykvíkingar eru að móta stefnu um þróun byggðar, nýtingu lands og meginumferðaræðar í höfuðborginni en ekki bara kjósa um hvort flugvöllurinn eigi að fara eða vera. Lenging á ferðatíma ef flugvöllurinn er fluttur skiptir vissulega máli fyrir landsbyggðarfólk. Tíminn skiptir líka máli fyrir höfuðborgarbúa. Byggð er nú komin upp undir Úlfarsfell og stefnir út á Kjalarnes. Fjöldi Reykvíkinga sem vinna nálægt miðborginni eyða daglega upp undir einum klukkutíma í ferðir til og frá vinnu. Það skiptir líka máli og 30 þús. manna byggð í Vatnsmýrinni gæti breytt því.

Að 16 árum liðnum geta vissulega komið fram nýir staðsetningarmöguleikar sem ekki eru á borðinu í dag og aðrir sem uppi eru nú reynst hagstæðir, ekki síst með tilliti til þeirrar öru þróunar og tæknibyltinga sem eru í fluginu sem annars staðar. Reykvíkingar eiga að ákveða sína byggðaþróun sjálfir án afskipta hæstv. samgrh. sem ég efa að hafi atbeina allra landsbyggðarþingmanna til að standa við hótanir sínar og flytja innanlandsflugið til Keflavíkur, enda verður hann löngu farinn úr stól samgrh. þegar að því kemur.