Reykjavíkurflugvöllur

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 13:44:54 (5567)

2001-03-13 13:44:54# 126. lþ. 87.94 fundur 374#B Reykjavíkurflugvöllur# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[13:44]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Reykjavíkurflugvöllur er mikilvægur þáttur í samgöngukerfi landsmanna. Um næstu helgi fer fram atkvæðagreiðsla um skipulagsmál í Reykjavík. Ég hef í sjálfu sér ekki athugasemdir við það þó að borgarstjórn Reykjavíkur efni til atkvæðagreiðslu um skipulagsmál en þetta mál varðar hins vegar landsmenn alla.

Ég vil í upphafi athugasemda minna hvetja borgarbúa til að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu og ég vona að hún fari á þann veg að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Ég tel að hægt sé að skipuleggja það svæði þannig að það geti orðið öllum landsmönnum til sóma, bæði borgarbúum og öðrum og þar rúmist alls konar starfsemi, bæði atvinnustarfsemi og byggð með flugvellinum. Þetta svæði þarf ekki að vera eins og það er í dag. Ég óttast hins vegar að ef ákveðið verður að flytja flugið úr Vatnsmýrinni þá hangi skipulagsmál þessa svæðis í einhverri útideyfu um 16 ára skeið.

Ég tel að ef fluginu verði vísað úr Vatnsmýrinni þá sé því vísað því til Keflavíkur. Ég tel að fjármagn til að byggja flugvöll suður í Hvassahrauni sé illa varið og sé betur nýtt til að bæta aðrar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að það séu ekki nema tveir kostir í þessari stöðu: Byggja upp Vatnsmýrina og hafa flugvöllinn þar eða flytja innanlandsflugið suður á Keflavíkurflugvöll, um það stendur valið.