Reykjavíkurflugvöllur

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 13:51:38 (5570)

2001-03-13 13:51:38# 126. lþ. 87.94 fundur 374#B Reykjavíkurflugvöllur# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur er sýning þeirra hugmynda hagsmunahópa sem nú er tekist á um varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar og Vatnsmýrarsvæðisins. Það vekur athygli að tillaga borgaryfirvalda er aðeins ein: Enginn flugvöllur en þess í stað miklir steinkassar íbúðarhúsnæðis og verksmiðja og Loftleiðahótelið sem smábygging á þessari kynningarmynd borgaryfirvalda.

Ég hvet Reykvíkinga til að skoða þessa framtíðarskýjaborg óraunveruleikans. Síðustu áratugi höfum við verið minnt á óblíða náttúru landsins. Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins í áætlun almannavarna. Í náttúruhamförum sem ógna mundu öryggi íbúa höfuðborgarsvæðisins skiptir sköpum að hafa aðgang að flugvelli og höfn. Á sama tíma og mótmælt er flutningi ríkisstofnana út á land stuðla Reykvíkingar að slíkri þróun með því að greiða atkvæði gegn veru flugvallarins.

Reykvíkinga skiptir miklu máli þau 1.200 störf sem við flugvöllinn tengjast. Reykvíkinga skiptir miklu máli hin efnahagslegu áhrif flugvallarins. Með þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru nú varðandi kennslu og snertiflug minnkar umferð um Reykjavíkurflugvöll um 50%. Í sameiginlegu átaki Flugmálastjórnar og borgaryfirvalda verður auðvelt að aðlaga flugvöllinn að höfuðborginni og borgarbúum.

Upphaf flugsins hér á landi í Vatnsmýrinni var framfaraspor og upphaf nýrra tíma og stuðlaði ásamt Reykjavíkurhöfn að því að breyta Reykjavík úr bæ í borg. Eflum höfuðborg landsins með tilveru Reykjavíkurflugvallar.