Reykjavíkurflugvöllur

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 13:55:44 (5572)

2001-03-13 13:55:44# 126. lþ. 87.94 fundur 374#B Reykjavíkurflugvöllur# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst óþarfapirringur í mörgum í þingsalnum út af þessu máli. Við megum ekki gleyma því að í þessari umræðu hefur verið vakin athygli á skipulagsmálum í höfuðborginni og reyndar víðar um land. Við erum alla daga núna að ræða um skipulagsmál sem við gerðum ekki áður þannig að umræðan er að því leytinu ljómandi góð.

Mér finnst mjög eðlilegt að hafa flugvöllinn þar sem hann er, enda hafa verið gerðir samningar um það til ársins 2016 og ég minni á það sem komið hefur hér fram að ferðatími fólks utan af landsbyggðinni lengist verulega ef flugvöllurinn verður færður úr Reykjavík vegna þess að einungis er um tvo kosti að ræða, annars vegar Reykjavík og hins vegar Keflavík.

Mér finnst þessi atkvæðagreiðsla raunar ekkert hafa með vinarþel að gera, langt í frá. Það er bara verið að kanna vilja höfuðborgarbúa. Við eigum frekar, við sem viljum hafa flugvöllinn þar sem hann er í dag, að hvetja fólk til þess að fara á kjörstað. Við eigum að hvetja þá sem eru í hálfgerðri fýlu yfir þessari atkvæðagreiðslu til þess að mæta á kjörstað og greiða atkvæði. Um það snýst málið. Ef fólk sem vill hafa óbreytt ástand situr heima í fýlu er það í rauninni að skemma þessar kosningar, þannig að fyrir alla muni, þeir sem orð mín heyra, góðir Reykvíkingar, eiga að hugsa sig um og eiga auðvitað að fara og greiða atkvæði um að hafa flugvöllinn þar sem hann er í dag.