Reykjavíkurflugvöllur

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 13:57:41 (5573)

2001-03-13 13:57:41# 126. lþ. 87.94 fundur 374#B Reykjavíkurflugvöllur# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er mikið fagnaðarefni og framfaraspor, hinn aukni áhugi almennings á skipulagsmálum, ráðstöfun lands og náttúruauðlinda til framtíðar og áhrif einstakra áætlana á byggð, búsetu og samfélagsgerð. Allir íbúar landsins geta tekið þátt í þeirri umræðu og haft áhrif.

Samkvæmt lögum verður skylt innan ársins 2002 að allar skipulagsáætlanir, svæðisskipulög og aðalskipulög, fari í mat á umhverfisáhrifum og það mun væntanlegt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulag Reykjavíkur þurfa að gera og þá hafa allir íbúar landsins sama rétt til að koma að athugasemdum og ábendingum.

Herra forseti. Það er að mínu viti beinlínis rangt að íbúar eins svæðis eins og í þessu tilfelli Reykjavíkur geti bundið með innbyrðis atkvæðagreiðslu fyrir fram lokun flugvallarins í höfuðborg allra landsmanna, Reykjavík, þar sem um áratuga bil hefur verið þungamiðja almenningssamgangna innan lands. Ákvörðun um flutning Reykjavíkurflugvallar til Keflavíkur eða annarra staða í nágrenninu má ekki taka undir þeirri pressu að honum sé úthýst þaðan sem hann er nú. Samgöngur að og frá flugvelli, uppbygging þjónustu, öryggismál, fjölþætt mikilvægi flugvallarins, alla þessa þætti verður að skoða mjög gaumgæfilega fyrir fram og þeir þurfa að ganga upp áður en lokun flugvallar í Reykjavík er ákveðin.

Umræðan um flugvöllinn hefur leitt fram nýjar hugmyndir um fyrirkomulag og aðbúnað á því svæði þar sem hann er nú. Leita þarf allra leiða til að takmarka það land sem flugvöllurinn krefst, gera allt sem hægt er til að tryggja öryggi og lágmarka áhrif umferðarinnar á nærumhverfið.

Herra forseti. Að mínu viti er afar mikilvægt að aðilar sem hér eiga hlut að máli sameinist í að finna bestu lausn fyrir miðstöð innanlandsflugsins á svæði Reykjavíkurflugvallar og í þá framtíðarsýn ber að einhenda sér.