Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 14:45:30 (5581)

2001-03-13 14:45:30# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við fáum frv. til umfjöllunar um sölu á eignarhluta ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að selja þá í heild sinni, eða allan hlut ríkisins. Áður höfðum við afgreitt frv. sem heimilaði sölu á 15% hlut ríkisins í þessum sömu bönkum. Reyndar var það svo að þegar það frv. var afgreitt undir lok árs 1999 hafði ríkið þegar afsalað sér hluta af sinni eignaraðild. Þetta hafði gerst með þeim hætti að þegar lögin voru samþykkt um hlutafélagavæðingu bankanna var sett þar inn ákvæði sem heimilaði ríkinu að styrkja eiginfjárstöðu hlutafélagabankanna með útboði á nýju hlutafé. Þegar Alþingi fékk til umfjöllunar frv. um að selja hlut í bönkunum, þá hafði sú sala í reynd farið fram, þá hafði ríkið aðeins um 85% eignaraðild.

Þess vegna er nú svo komið að þótt Alþingi hafi aðeins í reynd samþykkt 15% sölu, þá á ríkið aðeins 68,29% í Landsbanka Íslands og 72,56% í Búnaðarbankanum. Flestir aðrir eignaraðilar eru smáir. Í Landsbankanum er stærsti eignaraðilinn utan ríkisins, Philadelphia International Equities Incorporated sem á 4,25%, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands með 2,49% og LB-Holding Limited með 2,19%. Næststærsti eignaraðilinn að Búnaðarbankanum er Kaupþing með 7,88% og Lífeyrissjóður starfsmanna BÍ, Búnaðarbankans væntanlega, 4,11%. Síðan er VÍB með 1,28% og síðan koma aðrir eignaraðilar sem eru mun fámennari.

Þessi framgangsmáti er allur mjög í samræmi við þá aðferðafræði sem ríkisstjórnin hefur beitt við einkavæðingu. Ákvarðanir hafa verið teknar skref fyrir skref og það hefur jafnan verið haft á orði að nauðsynlegt sé að fara mjög varlega í sakirnar og í mörgum tilvikum hefur því jafnvel verið lýst yfir að ekki standi til að selja viðkomandi ríkiseignir, einungis sé ráðgert að koma á breyttu rekstrarformi. Yfirlýsingar af þessum toga hafa verið viðhafðar þegar fyrst voru viðraðar hugmyndir um að gera Landsbankann og Búnaðarbankann að hlutafélögum í upphafi stjórnarsamstarfs Sjálfstfl. og Framsfl. árið 1995.

Í greinargerð sem var birt með frv. um hlutafélagavæðingu bankanna og lagt var fyrir 121. löggjafarþingið 1996--1997, sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Þótt ekki sé ráðist í sölu á fjármálastofnunum í eigu ríkisins mælir margt með því að slík starfsemi sé rekin í formi hlutafélaga. Þetta á við jafnvel þótt ríkið sé eini eigandi viðkomandi hlutafélags eins og gert ráð fyrir í þessu frumvarpi. Starfsemi hlutafélaga er í vandlega skilgreindu formi og hefur löggjafinn sett ítarlegar reglur þar um, m.a. um starfssvið stjórnar, framkvæmdastjórnar og aðalfundar. Nefna má að í hlutafélagalögum eru ákvæði sem vernda rétt minni hluta eigenda. Þar sem ríkið býður öðrum til samstarfs um atvinnurekstur er því hlutafélagsformið sérstaklega viðeigandi. Með því að reka viðskiptabanka í hlutafélagsformi verður reksturinn einnig sveigjanlegri. Þá veldur fjárhagsleg uppbygging fyrirtækis því að mjög æskilegt er að reka fyrirtæki í eign ríkisins í hlutafélagsformi.``

Þetta er á árunum 1996 til 1997. Það er aðeins verið að breyta rekstrarfyrirkomulaginu til að gera það sveigjanlegra, ekki vakir fyrir mönnum að sjálfsögðu að selja þessar stofnanir.

Við vorum mörg sem bentum á að þetta væri að öllum líkindum ekki rétt, raunveruleikinn væri sá að menn væru að taka yfirveguð skref í þá átt að selja þessar stofnanir. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst miklu heiðarlegra að koma hreint fram og segja hreint út hvað fyrir þeim vakir. Ég virði að sjálfsögðu það sjónarmið að eðlilegt sé að reka stofnanir á borð við banka á markaði á markaðsforsendum. Ég virði það sjónarmið. Ég er ekki endilega viss um að ég sé sammála því sjónarmiði og reyndar er ég það ekki og ætla að nefna nokkur rök þar að lútandi.

Í umræðu um ríkisbankana hefur því verið haldið mjög á lofti, sérstaklega fyrr á árum, að menn hafi oft verið óábyrgir með afbrigðum, lánað til áhættusamrar útgerðar og fyrirtækja vítt og breitt um landið og þurft að súpa seyðið af afleiðingunum þegar að hefur kreppt í efnahagslífinu. Ég tel að það sé mjög varasamt að fordæma allar slíkar lánveitingar til stuðnings atvinnulífi og þótt það sé vissulega ánægjuleg þróun að lánastofnanir sýni ábyrgð í lánveitingum og láni þeim sem öruggt má heita að geti endurgoldið skuldir sínar, þá kann það stundum að vera landsmönnum til góðs að lánastofnanir láti ekki stjórnast af ágóðavoninni einni, heldur sýni félagslega ábyrgð á ögurstundu, þegar kreppir að í atvinnulífi byggðarlaga.

Pólitísk stefnumörkun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr er hins vegar þrengri en svo að hún rúmi slíka félagslega sýn. Ég vil einnig benda á að þegar kreppir að í fjármálakerfi einnar þjóðar, þá þarf ríkið jafnan að grípa í taumana. Það er bara staðreynd. Og það kom fram í máli hæstv. viðskrh. sem vitnaði í greinargerð með þessu frv. að slíkt hefði verið gert í Noregi á sínum tíma, í bankakreppunni. Þegar bankarnir í Noregi hrundu kom ríkið inn með meira en myndarlegum fjárframlögum upp á yfir 500 milljarða kr. og tók þessar lánastofnanir í eigin vörslu.

Mér kom þetta í hug hér við umræðuna í gær þegar hæstv. fjmrh. svaraði gagnrýni sem fram kom frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um lánakerfið og hugsanlega yfirvofandi bankakreppu, að ástandið á fjármálamarkaði á Íslandi væri ekki alvarlegt nú um stundir, einfaldlega vegna þess að skuldasamsetning þjóðarinnar væri með öðrum hætti en hún áður var. Menn hafa gumað af því að hlutfall ríkisskulda sé núna komið undir 20% af landsframleiðslu. Fyrir fáeinum árum hafi það verið 60--70%, nú sé það komið þetta niður. En á sama tíma hefur það hins vegar gerst að skuldir íslensku þjóðarinnar eru orðnar meiri en nemur landsframleiðslu og þetta er í fyrsta skipti sem það gerist, stefnir í 800 milljarða kr.

Hver skyldi verða ábyrgur þegar upp er staðið? Hæstv. fjmrh. sagði: Ekki ég. En erum við ekki ein þjóð í einu landi sem berum ábyrgð hvert á öðru þegar á reynir? Jafnvel þótt menn hafi ekki þá siðferðilegu sýn, þá er reynslan sú að þegar bankakerfin hrynja hafa ríkisstjórnir verið nauðbeygðar til að grípa í taumana, ekki bara í Noregi og Kanada því fleiri dæmi eru um slíkt.

Þegar allt kemur til alls hefur ríkisvaldið alltaf ábyrgð gagnvart fjármálakerfi landsins. Þess vegna er eðlilegt að þeirri ábyrgð fylgi einnig áhrif. Þá er ég að tala um pólitísk áhrif. Nú segja menn sem svo að pólitísk áhrif á fjármálastofnanir hljóti að vera af hinu illa og segja að fagleg sjónarmið eigi ein að ríkja. Og hvað eru fagleg sjónarmið? Fagleg sjónarmið eru þau í reynd að stjórnendur þessara fyrirtækja komi allir úr sama geiranum. Úr sama hluta samfélagsins og helst úr sama flokki. Það eru hin faglegu sjónarmið. Það eru peningavesírarnir sem koma úr Sjálfstfl. og einhverjir framsóknarmenn mega fylgja með, a.m.k. núna þessi missiri. Þetta eru hin faglegu sjónarmið.

Við sem tölum hins vegar fyrir lýðræðislegum pólitískum áhrifum viljum tryggja að fulltrúar sjónarmiða sem víðast að úr samfélaginu komi að máli. Þess vegna var það þannig til skamms tíma að Alþingi kaus í bankaráðin til að tryggja að sjónarmið sem flestra kæmu þar að borði og til að tryggja aðhald. Til að tryggja nauðsynlegt aðhald.

Hæstv. núverandi viðskrh. hefur kosið að fara þá leið að nýta sér hlutafélagavæðingu þessara banka og vald sitt í krafti þess hlutabréfs sem hæstv. ráðherra fer með, til þess að ráðskast með þá fulltrúa. Taka þessi völd af Alþingi og færa þau inn til sín og skipa einvörðungu í bankastjórnir þá einstaklinga sem eru hæstv. ráðherra að skapi. Er þetta líklegt til að styrkja aðhald með þessum stofnunum? Ég hefði haldið ekki. Það er ekki til þess fallið að styrkja slíkt aðhald.

Hver hefur afstaða okkar verið? Hver hefur afstaða okkar verið í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði? Okkar afstaða hefur verið sú að við höfum vilja hafa öflugan þjóðbanka á Íslandi. Við viljum hafa öflugan þjóðbanka á Íslandi sem yrði kjölfesta í fjármálalífinu, kjölfesta sem verður að vera til staðar og sem er til staðar þegar á reynir. Þá er það ríkið og ríkisvaldið sem þarf að grípa í taumana, það vitum við. Við viljum að þeirri ábyrgð fylgi einnig áhrif. Við viljum það.

Við höfum einnig haft af því áhyggjur að sala þessara fjármálastofnana geti komið viðskiptalífinu í koll. Ástæðan fyrir því að mikilvægt kann að vera fyrir íslenskt efnahagslíf að hafa öflugan þjóðbanka er að sporna gegn varasömum afleiðingum þeirrar miklu samþjöppunar á valdi og peningum sem stefnir í í íslensku efnahagslífi. Það er nefnilega þannig að líklegt er að sömu aðilar og hafa komist yfir miklar eignir í atvinnulífinu nái einnig tökum á fjármálalífinu. Hætt er við að eignist þessir aðilar bankana, kæmu þeir til með að lána sjálfum sér fé úr hirslum þeirra þá væri boðið heim hættunni á misbeitingu þessara mikilvægu undirstöðustofnana í efnahagslífi þjóðarinnar. Þá væri sú hætta fyrir hendi að bankarnir misnotuðu aðstöðu sína.

Ég spyr þá sem eru talsmenn frjálsra markaðsviðskipta, hvort þeir telji markaðnum vel borgið með slíku fyrirkomulagi. Ég hef um það mjög miklar efasemdir og við höfum um það efasemdir.

Þetta er sem sagt grundvallarafstaða okkar, að við teljum eðlilegt að í eigu þjóðarinnar sé öflugur þjóðbanki, kjölfesta í fjármálalífi þjóðarinnar.

Við höfum einnig sett fram tillögur nái sjónarmið okkar ekki fram að ganga, eins konar varaplan. Því að við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að þau sjónarmið sem ég er hér að tala fyrir eru minnihlutasjónarmið í þingsölum. Þau eru ekki minnihlutasjónarmið í samfélaginu, það held ég ekki. Þau eru minnihlutasjónarmið í þingsölum og eiga náttúrlega alls ekki nokkurn hljómgrunn í þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Ekki nokkurn. (Gripið fram í.) Og undrar engan, er sagt hér í salnum. Ég held það undri nokkra. Og hverja? Kjósendur Framsfl., suma, vegna þess að þeir kusu Framsfl. margir hverjir á öðrum forsendum, héldu að þar væri kominn einhver styrkur fyrir landsbyggðarsjónarmið og félagsleg sjónarmið sem síðan hefur ekki reynst vera.

Það varaplan sem við höfum sett fram birtist í frv. sem við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og sá sem hér stendur lögðum fram fyrir nokkru síðan, á 125. löggjafarþingi, þar sem við gerðum tillögu um breytingu á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum, þar sem við leggjum áherslu á dreifða eignaraðild. Að eignarhlutur megi aldrei vera meira en 8% hlutafjár í viðskiptabanka. Ég minnist þess að þegar við töluðum fyrir því frv. á sínum tíma var tekið mjög vel í a.m.k. grunnhugsunina sem frv. byggir á. Margir höfðu efasemdir um að hægt væri að koma því í framkvæmd, en flestir tóku vel í þessa grunnhugsun, þar á meðal fulltrúar ríkisstjórnarinnar. Síðan hefur ekkert gerst og í frv. sem nú er til umræðu um sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum er ekkert vikið að dreifðri eignaraðild.

Að vísu er hér á borðum þingmanna og til umræðu síðar í dag frv. til laga um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum, þar sem tekið er á slíkum hlutum, geri fjárfestir sig líklegan til að fjárfesta í banka yfir einhverju tilteknu marki þurfi hann að ganga í gegnum hreinsunareld Fjármálaeftirlitsins, slíkar skorður eru þarna reistar. En allt er þetta að mínum dómi harla óljóst við fyrstu sýn og ekki fullnægjandi, það á eftir að skoða þetta mun nánar.

En dreifð eignaraðild, vel á minnst. Hvað erum við að tala um með dreifðri eignaraðild? Við viljum tryggja dreifða eignaraðild. Hve margir skyldu eiga hlut ríkisins eða standa að baki hlut ríkisins í ríkisbönkunum, Landsbanka og Búnaðarbanka? Um 80%. (PHB: Einn.) Einn, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég get upplýst hann um það að samkvæmt manntali og tölum frá 1. desember sl., að vísu eru það bráðabirgðatölur, þá voru Íslendingar 282.845. Þetta kalla ég dreifða eignaraðild. Síðan eru menn með tillögur um að þrengja þá eignaraðild og menn hafa róið að því öllum árum að þrengja eignaraðild á þessum fjármálastofnunum þjóðarinnar og koma henni í hendur örfárra aðila. (Gripið fram í: Eru þetta bráðabirgðatölur?) Þetta er að vísu bráðabirgðatölur, en 282.845 einstaklingar áttu ríkisbankana og það er gott að hæstv. viðskrh. hlusti á það, en ráðherrann beitir sér fyrir því að þrengja þessa eignaraðild enn frá því sem verið hefur með því að selja hlut ríkisins og þessara einstaklinga allra á einu bretti.