Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 15:07:53 (5583)

2001-03-13 15:07:53# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki áhuga á því að öll fyrirtæki verði ríkisrekin. Ég hef hvergi minnst á Sovétríkin, ég var að tala um Ísland. Ég var að tala um fjármálastofnanir í eigu íslensku þjóðarinnar. Ef hv. þm. finnst allt ein rjúkandi rúst hér þá væri fróðlegt að heyra hann gera nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum. (KPál: Ég sagði Sovét.) Sovét, segir hv. þm., ég hef hvergi minnst á það kerfi.

Ég vil spyrja hv. þm., sem á eftir að koma aftur upp í andsvari, hvort honum hafi fundist það rangt af hálfu norsku ríkisstjórnarinnar í byrjun tíunda áratugarins, og einnig þeirrar kanadísku, að reisa við einkarekið bankakerfi þeirra landa þegar það var komið í rúst. Fannst honum það rangt og fannst honum þær ráðagerðir og þau ráð minna sig á Sovét? Gæti verið að þær hafi einfaldlega verið í ætt við heilbrigða skynsemi og efnahagsleg sjónarmið sem menn töldu nauðsynlegt að taka tillit til?