Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 15:09:29 (5584)

2001-03-13 15:09:29# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ekki rangt af ríkisstjórnum að grípa inn í þegar heilu atvinnuvegirnir eru að hrynja, t.d. bankakerfið. Ég veit hins vegar ekki til þess að í þessum löndum hafi bankakerfið verið ríkisvætt í framhaldinu. Hins vegar var reynt að endurreisa það og þar var að sjálfsögðu einstaklingum og fyrirtækjum treyst til þess að eiga slík fyrirtæki og reka þau.

Þegar við berum saman hagkerfi okkar og Sovétríkjanna þá sést að þar var sama hversu illa fór, alltaf hélt ríkið áfram með stjórn fyrirtækjanna í sinni eigin hendi. Þar komust engir aðrir að en sjálfskipaðir kommissarar sovétkerfisins. Það gat ekki endað nema á einn veg, í einni rjúkandi rúst. Mér finnst boðskapur hv. þm. í þá veru, að þannig vilji hann sjá Ísland, að hér verði allt rekið af hálfu ríkisins og engum öðrum treyst.