Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 15:11:59 (5586)

2001-03-13 15:11:59# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði sem oftar um ,,okkar skoðun`` og sagði ,,við ætlum``. Fyrst ætla ég að spyrja hann hvort þetta sé einhver hópsál vinstri grænna sem hugsar alltaf öll eins?

Þá langar mig til að spyrja hv. þm. sem sagði að hæstv. viðskrh. hafi tekið völdin af Alþingi og kosið í bankaráð, þ.e. ráðherra einn kaus í bankaráð: Voru 280 þús. Íslendingar þar að verki í gegnum hæstv. ráðherra? Því þeir eiga þetta víst, segir hv. þm.

Þá vildi ég spyrja hann: Ef Alþingi kýs í bankaráð, hver á þá að gagnrýna þetta bankaráð? Ætla vinstri grænir að gagnrýna sinn fulltrúa í bankaráðinu? Þannig var þetta einu sinni.

Ég vildi síðan spyrja hv. þm.: Hver var hagnaður hinna ágætu ríkisbanka í áratugi, áður en þeir voru hlutafélagavæddir? Ég man ekki betur en að Alþingi dældi reglulega í þá milljörðum til að bjarga þeim.

Þá vildi ég spyrja hv. þm., einmitt varðandi samþjöppunarvaldið á peningum: Hver er staða lífeyrissjóðanna í því efni? Er þar ekki hættuleg samþjöppun á valdi yfir peningum sem eigendur fjárins hafa ekki einu sinni aðgang að? Hv. þm. er einmitt í stjórn lífeyrissjóðs og fer með þessa samþjöppun á valdi og peningum.