Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 15:13:52 (5587)

2001-03-13 15:13:52# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[15:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hér voru nokkrar spurningar bornar fram og ég skal svara þeim öllum.

Hv. þm. segir að ég hafi talað um ,,okkar skoðanir`` og sagt að ,,við ætlum``. Hann spyr hvort ég tali fyrir hönd einhverrar hópsálar. Ég vísaði þarna til afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, þingflokks hennar hér á Alþingi og sjónarmiða okkar þar.

Í öðru lagi spyr hann hvort viðskrh. einn fari með vald allra þegna þjóðarinnar? Það er valdið sem ég hef gagnrýnt hæstv. viðskrh. fyrir að taka til sín. Fyrr á tíð var kosið í bankaráð ríkisbankanna hér á Alþingi. Hver á þá að sýna aðhald, spyr hv. þm., ef allir skipa sinn fulltrúa? Mundu vinstri grænir gagnrýna sinn fulltrúa? Ég geri ráð fyrir því, þetta er fjölþátta samfélag og ég hafna hvers kyns samtryggingu af þessu tagi. Eðlilegast er að tryggja að fulltrúar og stjórnendur komi sem víðast að úr mörgum áttum úr samfélaginu. Það er síður en svo verið að skrifa upp á samtryggingu með því.

Hv. þm. talar um samþjöppun á valdi í lífeyrissjóðunum og að fáir fari með það vald. Það er alveg rétt að mikið vald safnast í lífeyrissjóðum landsins. Mér finnst mjög mikilvægt að þeir sjóðir og sá hluti fjármálakerfisins axli samfélagslega ábyrgð. Ég hef talað fyrir því að undanförnu.

Til mín var beint einni spurningu enn, um hagnað bankanna. Ríkisbankarnir hafa þegar á heildina er litið skilað miklum hagnaði. Þjóðfélaginu öllu hafa þeir að sjálfsögðu skilað hagnaði með því að taka þátt í að stýra þessari þjóð og atvinnulífinu til uppbyggingar.