Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 15:44:09 (5595)

2001-03-13 15:44:09# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lögum um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands sem gefur ríkisstjórninni heimild til að selja hlutafé ríkissjóðs í þeim bönkum. Yfir því gleðst ég og fagna því þessu frv. og styð það eindregið.

Forsaga málsins er sú að menn vildu sameina bankana áður en þeir yrðu seldir en það var ekki heimilað af samkeppnisráði vegna þess að þá mundi samkeppni minnka hér á landi. Það virðist sem svo að samkeppnisráð sjái ekki þá erlendu samkeppni sem innlendir bankar og fjármálastofnanir standa í sem felst í því að vegna hávaxtastefnu Seðlabankans hefur öllum þeim fyrirtækjum og sveitarfélögum á Íslandi sem eitthvert bolmagn hafa, og eru álitin gjaldgeng á markaði, verið ýtt út til erlendrar samkeppni. Öll stærri fyrirtæki landsins og stærstu sveitarfélögin eru með beina hlaupareikninga í erlendum bönkum og fjármagna sig að mestu leyti erlendis beint án íslenska fjármálamarkaðarins.

[15:45]

Þetta er samkeppnin sem samkeppnisráð sá ekki. Ég hygg að mjög fljótlega breytist aðstæður þannig að sameiningin verði heimiluð, jafnvel um leið og búið er að leyfa einkavæðingu. Þeir sem hyggjast kaupa þessa banka geta þannig alveg eins litið á þann möguleika að sameina þá á eftir. Samkeppnisráð mun ekki geta staðið í veginum fyrir því vegna þess að þá verður samkeppnin við útlönd augljósari. Í skýrslu Seðlabankans segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Bankaþjónusta breytist hraðstíga. Margir samvirkandi þættir eiga þar hlut að máli, svo sem áhrif nýrrar upplýsingatækni, aukin milliliðalaus viðskipti, alþjóðavæðing, vaxandi samkeppni, sameiningar og tengingar bankaþjónustu við aðra fjármálaþjónustu.``

Seðlabankinn segir beinlínis að það sé vaxandi samkeppni. Stuttu seinna segir hann:

,,Grundvallarbreytingar eru að verða í bankaþjónustu sem verða ekki umflúnar þar sem sömu áhrifaþættir eru að baki um heim allan.``

Við horfum fram á miklar tæknibreytingar á þessum markaði. Ég minnist þess að þegar rætt var um hlutafjárvæðingu bankanna árið 1997, að mig minnir, þá gat ég þess að ríkið hefði um fimm ár til að selja bankana áður en þeir yrðu verðlausir sem ríkisstofnanir vegna þess að þeir geta ekki staðið einkaaðilum snúning í þeirri baráttu sem við stöndum frammi fyrir, þeirri miklu breytingu sem verður með tilkomu netsins.

Herra forseti. Nokkuð hefur verið rætt um getu hlutabréfamarkaðarins til að ráða við þennan bita ásamt þeim bita sem er Landssími Íslands sem er þó öllu stærri. Þeir sem um þetta fjalla líta þröngt á markaðinn, eins og aðeins Íslendingar spili á þessum markaði. Þeir gleyma því að við erum þátttakendur í Nordek og þar er skortur á íslenskum hlutabréfum sem útlendingar mega kaupa. Þeir mega ekki kaupa í því sem okkur þykir skemmtilegast, þ.e. sjávarútvegi og orkufyrirtækjum. Það má reyndar enginn kaupa orkufyrirtæki enn þá, hvorki Íslendingar né útlendingar. Þar eru ríkið og opinberir aðilar einir um hituna, í orkugeiranum.

Þegar þessi fyrirtæki, fjarskiptafyrirtækið Landssíminn og fjármálafyrirtækin Landsbankinn og Búnaðarbankinn, koma inn á markaðinn sé ég fyrir mér að útlendingar sjái þar möguleika og get fullvissað hv. þm. um að þetta eru ekkert voðalega stórir bitar á alþjóðlegum verðbréfamarkaði. Ætli það tæki ekki eins og tvær sekúndur að selja þetta á hlutabréfamarkaði í New York ef á þyrfti að halda. Þetta eru ósköp litlir bitar og ég sé ekkert í veginum fyrir því að hlutabréfamarkaðurinn ráði við þessa bita, sérstaklega ef þeir eru arðbærir. Ég tel að það sé ekkert vandamál að selja þá. Hins vegar er vandi að fara með það fé sem ríkissjóður fær. Það er vandi. Ef menn ætla að nota þessa peninga til þess að dreifa í einhver gæluverkefni, reisa hin og þessi óarðbæru fyrirtækin út um land, þá getur vel verið að þetta auki á þensluna. Ríkissjóður þarf hins vegar að vinna á móti straumnum. Ef við seljum erlendum aðilum stóran hlut þá eigum við að kaupa í erlendum aðilum á móti þannig að engir peningar hreyfist. Það kæmi vel til greina að ríkissjóður eignaðist t.d. í einhverju fjarskiptafyrirtæki eða banka erlendis sem keypti Landssímann eða þessa banka. Ef lífeyrissjóðirnir kaupa, sem mér finnst líklegustu kaupendurnir innan lands vegna þeirra samþjöppunar fjármagns sem þar á sér stað, þá verður ríkissjóður að vinna á móti því með því að draga inn t.d. spariskírteini eða jafnvel kaupa húsbréf á markaði á móti, nota fjármagnið til að vinna á móti þeim fjármagnstilflutningum.

Undanfarið hefur verð á þessum hlutafélögum sem við ætlum að einkavæða lækkað umtalsvert. Það er þáttur í innlendri og alþjóðlegri þróun og menn þurfa bara að horfast í augu við það. Menn eru búnir að tapa einhverjum milljarðatugum á því að draga lappirnar í að selja þetta. Það er bara einu sinni þannig og við þurfum að horfast í augu við það. Ríkissjóður tapar á því. Hins vegar er botninum vonandi náð og að sjálfsögðu þarf ríkisvaldið að vera mjög varkárt í því hvernig það selur fyrirtækin og fá við það góða sérfræðiráðgjöf. Ég get ekki, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, haft vit á því. Hann taldi rétt að selja bara annan bankann fyrst. Ég held að það sé langbest að ríkisstjórnin ráði í það með sérfræðingum sínum. Ég þekki ekki það vel til á þessu sviði að ég geti gefið þar einhverjar ráðleggingar.

Herra forseti. Nokkuð hefur verið rætt um samþjöppun eigna og menn hafa séð miklum ofsjónum yfir slíkri þróun, sérstaklega hv. þm. Ögmundur Jónasson. Hann talaði um að mikil samþjöppun eigna gæti orðið og menn færu að lána sjálfum sér. Hann heldur sem sagt að upp geti komið sú staða sem var hér í eina tíð þegar stjórnmálamenn stýrðu útlánum bankanna, nema nú mundu menn hætta sínu eigin fé. Það er bara það vitlausasta sem þeir gerðu. Hefði einhver hætt 5 milljörðum, segjum að einhver ætti þá upphæð en ég geri ekki ráð fyrir að neinn Íslendingur eigi svo miklar eignir, og lagt 5 milljarða undir í banka en færi svo að gera einhverjar vitlausar ráðstafanir, t.d. að lána sjálfum sér með niðurgreiddum vöxtum þá mundi hann tapa langmest á því sjálfur. Hann mundi tapa meira á hlutafénu en hann græðir á láninu þannig að það yrði mjög vitlaust. Hins vegar gæti þetta komið upp hjá lífeyrissjóðunum, herra forseti, vegna þess að þar er aðhald eigendanna afskaplega veikt og langt í burtu. Það gæti verið vegna þessa hvað einstaka lífeyrissjóður er stundum glannalegur í fjárfestingum. Einmitt þessi staða gæti komið upp. En það er vegna þess að það er ekki lýðræði í lífeyrissjóðunum. Eigendur fjárins koma ekki að því fé. Það mætti hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem er í stjórn lífeyrissjóðs á dálítið hæpnum forsendum hafa í huga. (Gripið fram í.)

Varðandi þá draumsýn, svo ég komi rétt aðeins inn á ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem hann hafði á gamla daga. Um pólitíkusana, pólitíska fyrirgreiðslu, biðraðirnar hjá bankastjórunum og 20--30 manna hópi sem tekið var á móti á hverjum morgni. Þá báðu menn kannski um 100 þús. kr. víxil og fengu 30 þús. kall eftir 2--3 vikur. Öll sú misnotkun og spilling sem fólst í því kerfi er ekki til eftirbreytni. Ég held að það sé ekki æskilegt að taka það kerfi upp aftur. (Gripið fram í.) Það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson horfði á dreyminn, þjóðarbanka og bankaráð kosið af þingmönnum með allri þeirri pólitísku spillingu sem í því var fólgin í eina tíð, er ekki mín draumsýn. (Gripið fram í.) Og sá vaðmálskommúnismi sem felst í þessari draumsýn og fortíðarhyggju á varla rétt á sér. (LB: En nútímaaðferðafræðin?) Nútímaaðferðafræðin er miklu betri.

Ég tel mikið betra, herra forseti, að menn geti tekið lán eftir getu sinni hvenær sem er og þurfi ekki að spyrja kóng eða prest, þurfi ekki að liggja á hnjánum fyrir framan bankastjóra. Ég tel betra að þar ríki jafnræði og mikið framboð af lánsfé. Ég held að það sé miklu betri staða. Hins vegar getur vel verið að áratugalöng reynsla landsmanna af því að krjúpa á hnjánum og fá gefna peninga valdi því að þeir hafi ekkert verðskyn á vexti. Það getur verið skýringin á því hvað sumir einstaklingar, sérstaklega yngra fólk, er glannalegt í að taka lán eins og við ræddum í gær. Eldra fólk virðist hins vegar varkárara í lántökum, það minnka alla vega vanskilin hjá þeim sem eru eldri en 35 ára.

Þetta er uppeldi Seðlabankans og bankakerfisins á landsmönnum í áratugi, að það borgi sig að skulda hvað sem það kostar. Það var reynsla manna í áratugi en það á ekki lengur við. Það borgar sig ekki lengur að skulda. Nú ætti hver einasti maður að taka til hendinni og borga upp skuldir sínar vegna þess að það borgar sig alls ekki lengur að skulda í því hávaxtaumhverfi sem við búum við í dag. Þetta er hins vegar dálítið út fyrir efnið, herra forseti. Við erum að ræða einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans. Ég endurtek að ég fagna þeirri sölu.