Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 15:58:19 (5597)

2001-03-13 15:58:19# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi hækkandi afföll á húsbréfum þá nefndi ég einmitt að ríkissjóður þyrfti að skoða þá fjármagnsdrauma sem verða til við söluna og vinna á móti þeim. Ef lífeyrissjóðirnir nota umtalsvert af ráðstöfunarfé sínu --- reyndar er þetta ekki nema hluti af því, öll salan, bæði Landssíminn og bankarnir taka kannski 5--6 mánaða ráðstöfun hjá þeim --- kaupa stóran hlut, þá þarf ríkið að nota það fé til að vinna á móti og kaupa það sem lífeyrissjóðirnir ella hefðu keypt, þ.e. húsbréf, og halda þannig afföllunum niðri þannig að ekki verði röskun af þeim ástæðum.

Varðandi afstöðu mína til Byggðastofnunar þá vill svo til að ég segi ekki ,,vér sjálfstæðismenn`` eða ,,við``, ,,okkar skoðun`` eða svoleiðis. Ég hef mína skoðun og hef alltaf verið á móti Byggðastofnun. Ég hef ávallt lagt til að sú stofnun yrði lögð niður og ég breyti þeirri skoðun ekki neitt. Og varðandi það sem hv. þm. talaði um, bankastjóradeilu eða eitthvað slíkt, þá kannast ég ekki við það nema úr blöðunum. Ég hef engan áhuga á því og vona að þeim látum linni þegar bankarnir hafa verið seldir.