Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 16:01:36 (5599)

2001-03-13 16:01:36# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hugsunin á bak við það að hafa dreifða eignaraðild er einmitt sú að enginn einn aðili fari að misnota bankana eins og gert var þegar ríkið átti bankana eitt. Þá voru þeir misnotaðir en það var vegna þess að sá sem fór með fjármagnið hafði engan hag af því, hann átti það ekki sjálfur. Þetta er það sem ég kalla fé án hirðis.

Ég get ekki séð sambærilega misnotkun þegar menn eru að hætta eigin fé vegna þess að þá tapa þeir á öðrum endanum því sem þeir græða á hinum. Þess vegna hef ég ekki haft miklar áhyggjur af dreifðri eignaraðild og ég hef auk þess bent á að það er mjög erfitt að koma í veg fyrir að menn misnoti það, hafi leppa og hægt er að úthugsa fjöldamargar leiðir til þess að komast fram hjá dreifðri eignaraðild ef menn vilja fara þá leið að takmarka það á einhvern hátt. Þess vegna er það að menn hafa að ég held almennt séð gefist upp á því að fylgja því eftir að hafa dreifða eignaraðild að bönkum.

Það sem gildir í fjármálastarfsemi alveg sérstaklega umfram aðra starfsemi er traust og ef lántakendur og sérstaklega sparifjáreigendur hafa minnsta grun um að það eigi að fara að misnota bankana eða stóreigandinn ætli að fara að misnota bankana á einhvern máta, þá fara þeir eitthvað annað. Og það sem fjármálastofnanir mega síst við er að missa traustið. Þess vegna get ég ekki séð að það sé nein hætta í rauninni í samþjöppun valds í þessum bönkum auk þess sem dreifð eignaraðild er þvílík að það kæmi aldrei til greina að einn einstaklingur ætti þann hlut, segjum 80% í þessum bönkum. Það eru helst lífeyrissjóðir sem þar gæti orðið samþjöppun á og það má svo sem ræða um það hvort hægt væri að misnota þá eignaraðild ef lífeyrissjóðir eignuðust stóran hlut.