Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 16:03:44 (5600)

2001-03-13 16:03:44# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Meginskýringin á því að stjórnarflokkarnir ákveða nú að selja allan eignarhlut ríkisins í báðum bönkunum, Landsbanka og Búnaðarbanka, er sú að nú er að líða á seinni hluta kjörtímabilsins og markmiðið er greinilega að selja sem mest af ríkiseigum á þeim tíma sem eftir lifir af kjörtímabilinu.

Mér segir svo hugur, herra forseti, að hagsmunir einkavinavæðingar séu stjórnarflokkunum ofar í huga en hagsmunir neytenda eða ríkissjóðs. Sú var tíðin að framsóknarmenn vildu fara varlega í einkavinavæðingunni og vöruðu við því eins og fyrrv. viðskrh. og núv. seðlabankastjóri að verið væri að brytja bankakerfið niður á þann hátt að molarnir pössuðu í munn kolkrabbans en það er liðin tíð, herra forseti. Nú eru framsóknarmennirnir bara einfaldlega í pilsfaldinum á íhaldinu og elta þá uppi í einkavinavæðingunni og því miður er ástæða til að óttast að þar ráði sérhagsmunir ferðinni en ekki almannahagsmunir.

Það var nokkuð sérkennilegt hvernig hæstv. viðskrh. mælti fyrir þessu stóra frv. þar sem er verið að selja báða ríkisbankana eða leita heimilda til þess upp á 40 milljarða. Hún tók til þess 3--5 mínútur, ræddi ekkert um hættuna á fákeppni eða dreifða eignaraðild eða hvað þá að hún færi út í áhrifin af því að fara með svona mikið fjármagn í einu út á markaðinn.

Samfylkingin hefur markað þá stefnu að selja eigi fyrirtæki í samkeppnisrekstri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um leikreglur á markaðnum og neytendasjónarmið eigi að ráða ferðinni fyrst og síðast, að hámarksverð fáist fyrir ríkiseignir og að samkeppni sé svo öflug að tryggður sé hagur neytenda og lægri kostnaður við þjónustuna og að þær girðingar séu reistar að komið sé í veg fyrir samþjöppun valds og fjármagns á báðar hendur. Samráð á að hafa við starfsmenn um söluna og tryggja þeim íhlutun í stjórn fjármálastofnana. Einnig þurfa aðstæður að vera þannig á markaði að salan hafi jákvæð áhrif á hlutabréfa- og fjármagnsmarkaðinn og stöðu efnahagsmála og ekki síst að þau skilyrði séu fyrir hendi að eigendurnir, þjóðin, fái sem mest fyrir eigur sínar. Línur Samfylkingarinnar eru líka skýrt dregnar við það að ekki kemur til álita að einkavæða heilbrigðis-, félags- og menntakerfið svo að það sé alveg skýrt.

Nú er spurningin sú: Uppfylla þessi áform ríkisstjórnarinnar um sölu á báðum ríkisbönkunum þessi skilyrði og þær forsendur sem Samfylkingin vill sjá þegar selja á allan hlut ríkisins í bönkunum? Er rétt nú og eðlilegt að gefa ríkisstjórninni blankóheimild til sölu á yfir 70% hlut í báðum bönkunum sem fram á að fara á tiltölulega stuttum tíma eins og ríkisstjórnin er nú að biðja Alþingi um? Þetta eru spurningar sem þarf að svara því að frv. eða greinargerð þess veitir ekki svör við þeim.

Fyrst af öllu vil ég gagnrýna það virðingarleysi sem ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra sýnir starfsmönnum með því að hafa ekkert samráð við starfsmenn um söluna eða ræða við þá um horfur þeirra og starfsöryggi við söluna. Hæstv. ráðherra verður að svara því hvort það sé virkilega svo að hún hafi ekkert samráð haft við starfsmenn um söluna eða hvernig starfsöryggi þeirra verður við slíka sölu. Mun hæstv. ráðherra standa þannig að málum við söluna að tryggt verði að ekki komi til uppsagnar hjá starfsmönnum heldur ráði starfsmannaveltan ferðinni? Þetta skiptir afar miklu og væri hægt að setja sem skilyrði við slíkri sölu.

Okkur birtist nefnilega aftur og aftur við sölu ríkisfyrirtækja virðingarleysi gagnvart starfsfólki og ég segi að það sé heimska því að það er rétt og eðlilegt að hafa starfsmenn með í ráðum sem mesta og besta reynslu hafa af bankarekstri og ég er staðfastlega þeirrar skoðunar að rétt sé og eðlilegt að tryggja fulltrúum starfsmanna setu í bankaráði með líkum hætti og víða þekkist erlendis. Þannig háttar til að það er meðákvörðunarréttur starfsmanna í stjórnum hlutafélaga alls staðar á Norðurlöndunum nema hér. Ég spyr hæstv. ráðherra um skoðun hennar á því. Mér finnst þetta afar mikilvægt atriði. Samfylkingin leggur mjög mikið upp úr að hægt sé að ná samstöðu um þetta við meðferð þessa máls á þingi. Það skapar bankanum ákveðin trúverðugleik að reynsla starfsmanna fái sess í ákvarðanatöku um stjórnun bankanna. Í annan stað tel ég mikilvægt að þannig verði staðið að málum að ekki verði eins og ég sagði um uppsagnir á fólki að ræða.

Næst ætla ég að fara yfir markaðsaðstæður og hvort heppilegt sé að selja báða bankana við þær aðstæður sem ríkja á fjármála- og hlutabréfamarkaðnum við þá vaxtastefnu sem nú er, gengisstöðuna, skuldsetningu fyrirtækja og heimila og út frá hagsmunum neytenda ekki síst.

Herra forseti. Í frv. ráðherrans --- og ráðherrann hefur leitað til Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans þar sem fram koma áhrifin af þessari sölu --- má víða sjá undirliggjandi ákveðin varnaðarorð í þessu efni bæði frá Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun. Ég nefni t.d. Þjóðhagsstofnun. Þar segir:

,,A.m.k. tvennt þarfnast þó frekari skoðunar: (i) Eru ákveðnar markaðsaðstæður sem geta valdið því að ávinningur af einkavæðingu verður lítill eða jafnvel neikvæður?`` --- Þetta eru varnaðarorð, herra forseti. --- ,,(ii) Er sjálfgefið að aukin hagkvæmni í rekstri einkavæddra fyrirtækja skili sér í jákvæðum þjóðhagslegum áhrifum?`` Hér er líka, herra forseti, verið að tala um hve mikil verðmæti hafi þegar farið á markað og síðan segir: ,,Til samanburðar áætlar Þjóðhagsstofnun að á fyrstu 10 mánuðum ársins hafi söluverðmæti hlutafjár í hlutafjárútboðum innlendra félaga og hlutafjárútboðum erlendra félaga sem einkum hafa beinst að innlendum fjárfestum numið um 35 milljörðum króna.`` Þeir segja að það sé ,,erfiðleikum bundið að leggja mat á þjóðhagsleg áhrif einkavæðingar með áreiðanlegum hætti. Því er ekki hægt að fullyrða að einkavæðing valdi auknum hagvexti og lægra atvinnuleysi, a.m.k. er þar vart eingöngu um áhrif einkavæðingarinnar að ræða.`` Síðan benda þeir á að það séu ,,einkum tvö atriði sem gætu mælt gegn því að ríkið selji eign sína í bönkum í heild sinni nú``.

Herra forseti. Það kemur líka fram hjá Þjóðhagsstofnun. Orðrétt segir: ,,Heppilegt kann þó að vera að hlutur ríkisins sé ekki seldur í einum áfanga.`` Ég spyr hæstv. ráðherra: Kom aldrei til greina miðað við þær aðstæður sem nú eru á markaðnum að halda öðrum bankanum áfram í ríkiseign? Þó að markmiðið út af fyrir sig gæti verið sala á þeim í framtíðinni þegar aðstæður sköpuðust, kom það aldrei til greina að selja bara annan bankann? Og ég spyr ráðherrann ef það hefur ekki komið til skoðunar: Af hverju var það ekki? Telur ráðherrann virkilega að markaðsaðstæður séu með þeim hætti, bæði þenslan á markaðnum, staðan á genginu og vöxtum og útlánaþenslan almennt í þjóðfélaginu, viðskipathallinn, að ekki sé ástæða til þess að fara með gát og af varkárni í þessa sölu, herra forseti?

Einnig koma fram aðvörunarorð frá Seðlabanka. Þeir segja hér, með leyfi forseta: ,,Þó má e.t.v. segja að í ljósi þess hve efnahagsástandið er viðkvæmt um þessar mundir og áhrifin óljós þurfi að gæta þess sérstaklega vel við útfærslu sölunnar að hún verði ekki til þess að ýta undir ójafnvægi.`` Þetta eru aðvörunarorð þó að ráðherrarnir hafi margoft sýnt að þeir vilji ekki hlusta á nein aðvörðunarorð sem segja okkur að blikur séu á lofti í þjóðfélaginu varðandi efnahagsástandið. Þeir segja einnig:

,,Þjóðhagsleg áhrif af fyrirhugaðri sölu hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. á innlenda eftirspurn og fjármálamarkaði eru háð mikilli óvissu.``

Þetta eru aðvörunarorð sem ber að hlusta á. Enn fremur segja þeir, með leyfi forseta: ,,Sala á hlutum ríkisins í bönkunum getur haft tímabundin verðbólguáhrif sem ráðast af viðbrögðum eins og lýst er hér að framan.``

Herra forseti. Á þetta ber að hlusta. Hæstv. ráðherra taldi greinilega enga ástæðu til að fara yfir þetta eða gera þinginu grein fyrir slíkum varnaðarorðum hjá þessum efnahagsstofnunum þjóðarinnar.

Meginmarkmiðið, herra forseti, við uppstokkun á fjármálamarkaði er að tryggja samkeppni. Einkenni á íslenskum fjármálamarkaði sem og í stærstu greinum atvinnulífsins er fákeppni stórra fyrirtækja sem oft og iðulega tengjast stjórnarflokkunum tveim. Það er full ástæða til að velta fyrir sér afleiðingum þeirrar fákeppni og samþjöppunar fjármagns og valds sem ríkir í tryggingakerfinu, hjá olíufélögunum, í flutningastarfsemi, sjávarútvegsfyrirtækjum, á matvörumarkaði og hvaða áhrif þessi fákeppni hefur á hag neytenda á afkomu þjóðarbúsins. Ég held að í raun og sanni sé það sama að gerast á bankamarkaðnum, þ.e. samruni og samþjöppun valds og fjármagns, með öðrum orðum fákeppni, og smátt og smátt mun færast í hendur færri, stærri og stærri og markaðsráðandi eignarhlutur sem hefur óæskileg áhrif á samkeppni og hag neytenda. Það er einmitt hætta á að þessir sömu aðilar, sem hafa nú nánast markaðsráðandi stöðu í þeim atvinnugreinum sem ég nefndi, komist líka yfir svo mikil ítök og markaðsráðandi stöðu í banka- og fjármálakerfinu að það ógni samkeppni og leiði til óeðlilegrar samþjöppunar valds og fjármagns í þjóðfélaginu. Þar liggja áhyggjur mínar, herra forseti, við þessa sölu á bönkunum og því vil ég tryggja eins og kostur er að ekki séu óeðlileg stjórnunar- og eignatengsl nú fyrir eða í uppsiglingu í bankakerfinu við þessa sölu og að girðingar séu reistar eins og hægt er án þess að vera samkeppnishamlandi til að sporna gegn fákeppni og valdasamþjöppun í bankakerfinu.

Það er lykilatriði fyrir heilbrigt atvinnulíf og fjármálamarkað að þannig sé bundið um hnútana og að bankakerfið verði ekki bundið á klafa fákeppni sem hyglar þeim stóru á kostnað hinna smáu. Það hefur of mikið verið að gerast í bankakerfinu. Dýru lánin með miklum kostnaði og okurvöxtum renna til þeirra sem verr hafa það í þjóðfélaginu en hagstæðari lánin til þeirra sem betur hafa það fyrir utan að fyrirtækin og stærri fjárfestar hafa a.m.k. hingað til getað leitað út fyrir landsteinana til að flýja hávaxtastefnuna og þann 6,5% vaxtamun sem er á lánum hér og annars staðar.

[16:15]

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um lykilatriði sem við munum kalla mjög eftir í starfi efh.- og viðskn. við meðferð þessa frv.: Mun það ganga eftir að Samkeppnisstofnun skili skýrslu þeirri sem þingmenn Samfylkingarinnar báðu um varðandi stjórnunar- og eignatengsl í atvinnulífinu og á fjármálamarkaði nú á næstu vikum? Ég tel afar brýnt að sú skýrsla komi inn í umræðuna um sölu á þessum bönkum og málið verði ekki afgreitt út úr þinginu fyrr en sú skýrsla hefur komið fram. Ég tel að hún geti verið afar mikilvæg inn í þessar umræður og óeðlilegt þar sem skýrslan er á næsta leiti að afgreiða þetta frv. fyrr en hún liggur fyrir. Um þetta vil ég spyrja hæstv. ráðherra. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að skýrslunni verði lokið hið fyrsta og henni hraðað þannig að hún geti legið fyrir þegar efh.- og viðskn. fjallar um málið? Þetta er afar brýnt. Samfylkingin leggur þunga áherslu á að þessi skýrsla komi inn í þingið.

Ég sé ekki að neitt liggi fyrir um hvernig tryggja eigi dreifða aðild við útboð á hlutabréfum í bönkunum. Ég vil spyrja: Hefur einkavæðingarnefnd fjallað um málið og hafa komið fram hjá henni tillögur um hvernig tryggja eigi dreifða eignaraðild við sölu á bönkunum? Mér sýnist að hér sé allt galopið. Það sé bara verið að kalla eftir stimpli Alþingis fyrir söluna og síðan ætli hæstv. ráðherrar að ráðskast með hvernig að sölunni verður staðið. Er ekki óþarfi, herra forseti, að gefa framkvæmdarvaldinu svona galopna heimild og opna fyrir allt í báðum bönkunum, sölu þeirra að fullu og öllu? Hvaða aðkomu hefur þingið að málinu aftur þegar heimildin hefur einu sinni verið veitt nema áformin séu þau, sem ég hef grun um, að selja eigi bankana á einu bretti á örskotstíma? Við fórum yfir stöðuna í efnahagslífinu og á fjármálamarkaðnum í gær og þar er margt sem hlýtur að spila inn í ákvarðanir um sölu á bönkunum. Hlutabréfamarkaðurinn er veikur um þessar mundir en mikil lækkun hefur orðið á gengi hlutabréfa, um 37% á einu ári, og markaðsvirði skráðra hlutabréfa á Verðbréfaþingi nú eru um 323 milljarðar eða voru það í janúarlok, og gengi á bönkunum hefur lækkað verulega frá því haust að fyrst kom til tals af hálfu stjórnarflokkanna að selja bankana eða um 13 milljarða kr. Margt bendir til þess að ríkið muni ekki meðan þessi lægð er á hlutabréfamörkuðum fá hámarksverð fyrir eign sína og tímasetningin sé frekar stillt inn á gróða einkavina en eigendurna, þjóðina. Er rétt, og ég spyr hæstv. ráðherra, að selja báða bankana í slíkri lægð á hlutabréfamarkaðnum? Hlutafjárframboðið virðist líka vera gífurlega mikið á næstunni ef áform ríkisstjórnarinnar ganga eftir. Förum yfir það, herra forseti.

50% sala á Landssímanum á þessu ári. Hefur ríkisstjórnin ekki boðað að hún hyggist selja 24% af hlutafénu í Landssímanum í vor og 25% síðar á árinu? Ég spyr hæstv. ráðherra um það. Liggur það ekki fyrir? Breyta áformin um söluna á bönkunum einhverju varðandi Landssímann? Ég spyr. Svo bætast við bankarnir og í farveginum er líka, eftir því sem ég fæ upplýsingar um, að selja Íslenska aðalverktaka og Íslandssíma. Þetta er allt í farvatninu núna á þessu ári. Þá gætum við verið að tala um, ef bankarnir liggja í 40 milljörðum, 50% í símanum, það er annað eins, og þá er eftir Íslandssími og Íslenskir aðalverktakar og þá gætum við verið að tala um 100 milljarða í nýju hlutafé inn á markaðinn á örskömmum tíma. Markaðsvirði skráðra hlutabréfa er núna rúmlega 300 milljarðar þannig að við erum að tala um þriðjung af því sem fyrir er. Síðan eru óskráðu bréfin á markaðnum sennilega annað eins. Þarf ekki að fara með gát í þetta, herra forseti, til að þessi sala raski ekki meira en orðið er stöðunni á fjármála- og verðbréfamarkaðnum og þetta geti leitt til frekara hruns á þeim hlutabréfum sem fyrir eru? Nóg hafa ýmsir einstaklingar og fyrirtæki skaðast á hlutabréfakaupunum á síðustu mánuðum.

Ég spyr líka um ábyrgðirnar, herra forseti. Við vitum að eftir hlutafélagavæðinguna varð ríkisábyrgðinni aflétt. Hvernig getur ráðherrann staðið frammi fyrir þjóðinni og sagt alveg keik úr ræðustól að ef kæmi til einhverrar banka- eða fjármálakreppu, sem hæstv. forsrh. sér nú hvergi, og við skulum vona að hann hafi rétt fyrir sér, en ef kæmi til einhverrar kreppu í bankakerfinu, eru eigendur innstæðna þá tryggðir? Ég spyr um það, ef við erum að setja þetta allt í sölu, eru eigendur innstæðna þá tryggðir? Samkvæmt lögum um tryggingasjóð eru innstæður tryggðar fyrir um 1,7 milljónir hjá hverjum innstæðueiganda en getur ráðherra, ég bið hann um það, staðið hér frammi fyrir þjóðinni, sagt við þjóðina: Á hverju sem gengur, þótt við seljum báða þessa banka á næstu vikum, þurfa innstæðueigendur engu að kvíða. Ríkið mun koma til bjargar. Getur ráðherrann staðfest þetta eða sagt okkur að tryggingasjóðirnir séu þannig að þeir tryggi með öruggum hætti innstæður eigenda?

Það er nefnilega svo, herra forseti, að það varð mikil bankakreppa fyrir áratug annars staðar á Norðurlöndunum. Þá fór það svo að ríkið þurfti að grípa inn í og það var farið út í ríkiseign á bönkum líka, t.d. í Noregi. Í Noregi eru 60% af bankahlutunum þar enn í ríkiseign og af 10 stærstu bönkunum annars staðar á Norðurlöndunum þegar farið er yfir rekstrartölur þeirra á síðustu árum, þá hefur Den norske Bank, sem er í ríkiseign, langhagstæðustu rekstrartölurnar. Það má líka sjá, herra forseti, af yfirliti sem ég er með í höndunum varðandi þóknunartekjur hjá bönkum og sparisjóðum á árunum 1995--1998, að þá var Landsbankinn og Búnaðarbankinn með hagstæðari þóknunartekjur en nokkurn tíma Íslandsbanki, einkarekni bankinn. Þess vegna spyr ég, herra forseti: Óttast hæstv. ráðherra ekki þetta í innspýtingu á nýju hlutafé kannski upp á fast að 100 milljörðum kr. inn á markaðinn og að það geti lækkað gengi annarra hlutabréfa?

Skoðun mín er sú að íslenski fjármálamarkaðurinn sé nú, ekki síst við núverandi aðstæður í efnahagslífinu og fjármálamörkuðum, á margan hátt illa í stakk búinn til að mæta bæði mikilli gusu á stuttum tíma af nýju hlutafé og miklu. Á þetta þarf að horfa, herra forseti.

Ég segi líka: Er eðlilegt að fara út í svona mikla sölu á bönkunum þegar engin stefnumótun liggur fyrir um markmið eða framtíðarþróun á fjármálamarkaði og í einkavæðingu ríkisstjórnarinnar? Með tilliti til áforma í einkavæðingu og annarri stjórn fjárfestingaráforma í þjóðfélaginu skiptir verulegu máli, auk stöðunnar almennt á fjármála- og hlutabréfamörkuðum og skuldastöðu fyrirtækja og heimila sem er mjög alvarleg, að slík stefnumótun liggi fyrir um framtíðaráform á fjármálamarkaði og einkavæðingu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur slík stefnumótunarvinna farið fram? Liggur hún fyrir? Það er auðvitað óðs manns æði að ana stefnulaust inn í mikla einkavæðingu við þær aðstæður sem eru í efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar.

Herra forseti. Það er ýmislegt sem ég hefði viljað koma betur inn á og geri það þá síðar í máli mínu eða þegar hæstv. ráðherra mælir fyrir fylgifrv. með þessu frv., en ég hef lagt fyrir hana nokkrar spurningar sem ég óska eftir að ráðherra svari við þessa umræðu.