Skýrslutökur af börnum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 16:36:43 (5606)

2001-03-13 16:36:43# 126. lþ. 87.95 fundur 375#B skýrslutökur af börnum# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[16:36]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Í upphafi vil ég segja að ég er sammála hv. málshefjanda um að hér sé um að ræða ákaflega viðkvæm og vandmeðfarin mál sem gæta þurfi að.

Hinn 1. maí 1999 gengu í gildi lagabreytingar um skýrslutökur af börnum í kynferðisbrotamálum. Skýrslutökur hafa frá setningu laganna farið fram, bæði í Barnahúsi og í húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem sérstaklega hefur verið innréttað húsnæði sem vel hentar í slíkum tilvikum. Stefnt er að því að slíkt húsnæði verði einnig innréttað við aðra héraðsdómstóla.

Skiptar skoðanir urðu um hvort húsnæðið í Reykjavík hentaði betur og má segja að dómurum hafi sýnst eitt um það en aðstandendum Barnahússins annað. Reyndin var hins vegar sú að hvort tveggja húsnæðið var notað og má nefna að fyrstu 15 mánuðina sem lögin voru í gildi voru teknar 111 skýrslur af börnum fyrir dómi sem meintum brotaþolum í kynferðisbrotamálum. Skýrslutaka, einkum af yngri börnum, fór þá fram 60 sinnum í Barnahúsinu en 51 sinni, einkum af eldri börnum, í húsnæði dómstóla.

Ágreiningurinn um ágæti skýrslutökuaðstöðu varð til þess að í því máli sem verið hefur í fréttum síðustu daga var hinn 8. sept. sl. kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur gegn andmælum réttargæslumanns barnsins, að skýrslutaka af því skyldi fara fram í húsnæði héraðsdóms en ekki Barnahúsi, eins og réttargæslumaðurinn vildi. Var sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti en eins og fram kemur í umræddu máli lauk ekki deilunni um skýrslutökustað. Barnið mætti ekki í héraðsdómi til skýrslugjafar og dómurinn vildi ekki nota aðstöðuna í Barnahúsi í þessu máli.

Ég vil taka það fram að embætti lögreglustjórans í Reykjavík átti á þessum tíma fund með foreldrum barnsins sem við sögu kemur í málinu ásamt réttargæslumanni þess og skýrði fyrir þeim afleiðingar þess ef neitað yrði að barnið mætti til skýrslutöku í húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur. Einnig var höfð milliganga um að þau hittu dómarann og skoðuðu húsnæði dómstólsins sem útbúið er sérstaklega í þessu skyni. Engu að síður varð niðurstaðan sú sem fram kemur í dómnum.

Á sama tíma var unnið að því að setja niður þessa deilu. Bæði ég og hæstv. félmrh. komum að því máli og einnig formaður dómstólaráðs fyrir hönd ráðsins. Niðurstaðan varð sú að á fundi dómstólaráðs, hinn 28. sept., samþykkti dómstólaráð leiðbeinandi viðmið um skýrslutökur af börnum sem brotaþolum í kynferðisbrotamálum. Tilkynning ráðsins markaði þau tímamót að í fyrsta sinn í vinnureglum dómstólanna var gert ráð fyrir notkun Barnahúss.

Í fréttatilkynningu sem dóms- og kirkjumrn. sendi frá sér þann 29. sept. voru hinar leiðbeinandi reglur kynntar. Þær gera ráð fyrir að skýrslutökur geti farið fram í Barnahúsi, af börnum allt að 14 ára og jafnvel eldri í sérstökum tilvikum. Sérstaklega er gert ráð fyrir að skýrslutökur fari fram í aðstöðu Barnahúss í þeim tilfellum er barn þarf að gangast undir læknisrannsókn.

Nú kunna menn að spyrja hver niðurstaðan af samþykkt dómstólaráðs hafi í raun orðið. Ég hef látið spyrjast fyrir um það í tilefni þessarar umnræðu og svarið er að í heildina tekið hafi dómarar notað aðstöðuna í Barnahúsi í auknum mæli. Það hefur m.a. komið fram í viðtölum við forstöðumann Barnaverndarstofu. Til samanburðar vil ég nefna að á tímabilinu 1. sept. 1999 til 1. mars 2000 voru teknar skýrslur í 17 málum í Barnahúsi, þar af í fjórum málum sem voru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. En á tímabilinu 1. sept. 2000 til 1. mars 2001 voru þar teknar skýrslur í 25 málum, þar af í 13 málum sem voru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Á síðara tímabilinu voru teknar skýrslur af sex börnum í húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur og má nefna að á þessu ári hafa komið upp fimm mál og í þeim öllum hafa skýrslur verið teknar í Barnahúsi.

Þegar skýrslutaka af börnum hefur farið fram í húsakynnum Héraðsdóms Reykjavíkur hafa sérfræðingar verið kallaðir til, yfirleitt frá Barnahúsi. Það á þó ekki við ef um stálpaða unglinga er að ræða en skýrslutökum í Barnahúsi hefur fjölgað verulega.

Ekki gafst tími til að vinna upplýsingar um aldursskiptingu barnanna en ég mun leitast við að útvega þær.

Hv. málshefjandi spurði í ræðu sinni hvort dómsmrh. sé kunnugt um verklagsreglur lögreglu í þessum málum og þá sérstaklega vegna fyrirkomulags skýrslutöku og sjónarmiða lögreglu til hennar. Eina svarið sem ég hef við því er að samkvæmt lögum vísar lögreglan slíku máli til dómara en tekur sjálf ekki skýrslu af barni. Um sakborning gilda almennar reglur.

Dómurinn sem er kveikjan að þessari umræðu á sér aðdraganda sem nær lengra aftur en til samþykktar dómstólaráðs. Þetta er héraðsdómur sem e.t.v. verður áfrýjað en ég get hvorki né vil meta meginefni hans, þ.e. sekt eða sakleysi þess sem sökum er borinn.

Að lokum við ég ítreka að ég tel ákaflega mikilvægt að hagsmuna barna sé gætt, ekki síst í tengslum við kynferðisbrot, og ég hygg að allir þingmenn séu sama sinnis.