Skýrslutökur af börnum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 16:46:58 (5609)

2001-03-13 16:46:58# 126. lþ. 87.95 fundur 375#B skýrslutökur af börnum# (umræður utan dagskrár), KVM
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[16:46]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Sú breyting sem varð á lögum um skýrslutöku af börnum í kynferðisbrotamálum og tók gildi hinn 1. maí 1999 hefur sætt mikilli gagnrýni margra þeirra sem láta sig velferð barna nokkru varða og hafa jafnframt mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði. Þetta fólk gagnrýnir það helst að þeim ávinningi sem náðst hefur í störfum Barnahúss við rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála gegn börnum hafi verið stefnt í voða.

Það dómsmál sem er tilefni þessarar umræðu endurspeglar augljóslega óþolandi réttaróvissu þeirra barna sem sætt hafa kynferðisofbeldi. Þær réttarreglur sem lögfestar voru með téðum breytingum hafa einfaldlega reynst illa og um þær mun aldrei skapast friður eins og það er þó nauðsynlegt að sátt ríki í jafnviðkvæmum málaflokki og hér um ræðir. Nógu þungbær eru þessi mál samt.

Nýlega gaf Barnaverndarstofa út skýrslu um Barnahús eftir tvö fyrstu starfsár þess. Í þeirri skýrslu er m.a. að finna afar vandaða og málefnalega gagnrýni á gildandi lagaákvæði og hvers vegna nauðsynlegt er að breyta þeim. Á það er bent m.a. að lögin stríða gegn sumum grundvallaratriðum réttarfarsins í landinu, svo sem um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds. Þá er sýnt fram á að núverandi fyrirkomulag við skýrslutöku í þessum málum sé orðin svo íþyngjandi að mjög hefur dregið úr kærum vegna kynferðisbrota gegn börnum. Þetta eru alvarleg skilaboð til okkar alþingismanna frá þeirri stofnun sem býr yfir hvað mestri sérþekkingu á sviði barnaverndar í landinu. Okkur ber skylda til að bregðast við þessum upplýsingum og ég treysti því að hæstv. dómsmrh. og allshn. Alþingis láti nú hendur standa fram úr ermum, að góð samstaða um þessi mál færi þau í betra horf og góðan farveg.