Skýrslutökur af börnum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 17:01:00 (5615)

2001-03-13 17:01:00# 126. lþ. 87.95 fundur 375#B skýrslutökur af börnum# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[17:01]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Hér hafa mikilvæg mál verið til umræðu sem jafnframt eru viðkvæm og vandmeðfarin. Réttarstaða barna þarf að vera trygg og ég trúi því að hún sé það hér á landi.

Skýrslutökur af börnum eru samkvæmt lögunum dómsathafnir. Samkvæmt meginreglu laga um meðferð opinberra mála skulu dómþing haldin á reglulegum þingstöðum og í dómsölum ef kostur er. Dómari getur þó ákveðið að skýrslutaka fari fram annars staðar en í húsnæði dómstóls ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Þetta er meginreglan.

Ég vil hins vegar ítreka að ég tel ekki við hæfi að ég tjái mig efnislega um nýfallinn dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem hér hefur verið vísað til og verður e.t.v. áfrýjað. Ég vil hins vegar trúa því að sú deila um notkun Barnahússins sem kemur fram í margnefndum dómi muni ekki endurtaka sig í síðari málum af svipuðu tagi. Við eigum að samnýta aðstöðu og sérfræðiþekkingu þar sem því verður við komið. Það virðist nú vera gert og ég er treg til að trúa því að um slíkt þurfi beinlínis að mæla fyrir með nýrri lagasetningu.

Reyndar stendur nú yfir heildarendurskoðun á lögunum um meðferð opinberra mála og ég tel rétt að málið sé skoðað í því samhengi. Ég legg áherslu á að eftir að dómstólaráð tók af skarið og gaf út viðmiðunarreglur um þessi mál hefur Barnahús verið nýtt í auknum mæli af dómurum og betri sátt virðist hafa skapast um þessi mál. Því er ekki ástæða til annars en að vera bjartsýnn um að svo muni verða áfram. En það er auðvitað fyrir öllu að menn leggist á eitt um að tryggja hagsmuni og velferð barnanna og að friður ríki í þessum málum.