Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 17:30:03 (5621)

2001-03-13 17:30:03# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[17:30]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem mig langaði til að óska eftir er að hv. þm. útskýrði betur fyrir okkur á Alþingi hvernig hann sér fyrir sér þessa kröfu um þjónustu, almannaþjónustu í bankakerfinu, hvort krafa eigi að vera á öllum fjármálastofnunum um að veita þá þjónustu um allt land, eða hvort leggja eigi hana á einstök fyrirtæki eða banka og með hvaða hætti ættu þau fjármálafyrirtæki sem eiga að uppfylla þau skilyrði að geta tekið eðlilegan þátt í samkeppninni á markaðnum. Mig langar til að fræðast svolítið betur um hvernig þessu megi koma fyrir. Ég óttast að það verði býsna snúið að hafa reglur sem snúa að einni stofnun sem héti þjóðbanki, eða að mögulegt væri að setja slíkar skyldur á herðar öllum fjármálastofnunum að veita þjónustu um allt land. Þó að hugsunin í þessu sé örugglega góð og ekkert nema gott um það að segja að bera hag allra í landinu fyrir brjósti með þessum hætti, þá held ég að ástæða sé til að við fáum að heyra hvernig hv. þm. sér fyrir sér að hægt sé að koma þessu fyrir.