Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 17:38:03 (5625)

2001-03-13 17:38:03# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[17:38]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hún hefur verið nokkur umræðan hér í dag um frv. til laga um breytingu á lögum um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands sem hefur það að markmiði að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til að selja það hlutafé sem ríkisvaldið á enn þá í þeim bönkum.

Í þeirri umræðu sem farið hefur fram hefur það almennt komið á daginn að stór hluti þeirra sem hafa tjáð sig hafa lýst því yfir að þeir séu almennt þeirrar skoðunar að rekstur eins og bankarekstur eigi heima hjá einkaaðilum. Sá er hér stendur er einnig þeirrar skoðunar. Ég er almennt séð fylgjandi því að ríkisvaldið losi sig úr rekstri eins og þessum, þó vissulega megi rökstyðja það að ríkisvaldið komi að ýmsum ákveðnum þáttum svo sem áhættufjármögnun og tímabundnum verkefnum o.s.frv. En almennt er ég þeirrar skoðunar að ríkisvaldið eigi ekki að stunda starfsemi eins og bankastarfsemi, sem ég held að sé betur komin í höndum einkaaðila og ég held að rekstur einkaaðila sé mun betri.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson rakti stutta sögu áðan að því er varðar rekstur banka í höndum einkaaðila og þar kom augljóslega fram að það dæmi sem við höfum bendir til þess að sú niðurstaða sé líklegri til að ná árangri.

En það breytir ekki því, virðulegi forseti, að við erum að ræða um verulega hagsmuni og verulega aðgerð. Við erum í reynd að ræða um það að ríkisvaldið ætlar að selja eignir sem það metur sjálft á 40--50 milljarða. Og ríkisvaldið eða ríkisstjórnin ætlar að selja þessar eignir á næstu tveimur árum samkvæmt því frv. sem við ræðum.

Ég vil nefna það í upphafi máls míns, svo það liggi fyrir, að mér finnst það satt best að segja allt að því móðgun við hið háa Alþingi að ekki skuli vera frekari útskýringar á því hvernig að þessari sölu skuli staðið, hvernig það skuli gert og þá ekki síður hvernig menn hyggjast nýta andvirðið sem fyrir bankana kemur, því að það skiptir ekki litlu.

Ég vil gera það strax að umtalsefni í ræðu minni og beina því til hæstv. viðskrh., af því ég veit að hún ætlar að halda hér tölu næst á eftir mér, hvað annars vegar hæstv. viðskrh. átti við í blaðaviðtölum fyrir nokkrum vikum þar sem hún nefndi það sérstaklega eða orðaði það svo, ég man efnið rétt, þó að ég muni kannski ekki endilega orðalagið rétt, að hún hlakkaði til að fara að eyða því fé sem fyrir þetta hlutafé kæmi. Og þá hefur ekki síður komið fram hjá hv. þingmönnum Framsfl. það viðhorf sem ekki verður skilið öðruvísi en svo að einhver hluti þessara fjármuna muni fara í rekstur Byggðastofnunar og úthlutun á vegum Byggðastofnunar. Og þá má vissulega velta því fyrir sér, virðulegi forseti, hvort það sé í raun og veru það markmið að færa þennan rekstur úr höndum ríkisins yfir til einkaaðila, hvort það markmið náist í sjálfu sér ef síðan á að taka það fjármagn að einhverju leyti sem fyrir þessa banka kemur og setja í einhvers konar ríkisbanka undir heitinu Byggðastofnun og fara að úthluta því þaðan með pólitískum hætti.

Ég geld varhuga við því ef hinir gömlu helmingaskiptaflokkar hafa komist að þessu samkomulagi í viðræðum sín á milli um hvernig standa skuli að sölu bankans. En draga má þá ályktun annars vegar af orðum hæstv. viðskrh. í viðtölum við fjölmiðla fyrir nokkru og hins vegar ekki síður af viðtölum sem fjölmiðlar hafa átt við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, formann þingflokks Framsfl. En ég ætla rétt að vona að þessar hugleiðingar mínar eða grunsemdir eigi ekki við rök að styðjast og ekki sé ætlunin að fara að dreifa þessu út frá Byggðastofnun með einhverjum pólitískum hætti og þá væntanlega í því skyni að kaupa atkvæði fyrir einhverja tiltekna stjórnmálaflokka, þannig að nýta eigi almannafé með þeim hætti. Sú aðferðafræði sem ég hef nefnt minnir um margt á liðna tíð og ég hef velt hér upp hvort hugsanlegt væri að menn hafi það rætt sín á milli. Það minnir um margt á liðna tíð og ég vona satt best að segja að sú tíð sé liðin. En ég vildi halda þessu til haga í umræðunni.

Þá vildi ég nefna, virðulegi forseti, að það eru kannski þrjú meginmarkmið sem ríkisstjórnin hefur kveðið upp úr með að hún hyggist stefna að með sölu á þessum bönkum. Í fyrsta lagi er það hagræðing á fjármagnsmarkaði. Því miður er það nú þannig að þegar maður les þetta frv. í gegn þá sér maður ekki á nokkurn hátt hvernig ríkisstjórnin ætlar að ná því markmiði. Þetta er einungis einhvers konar yfirlýsing sem liggur fyrir en hún er ekki útfærð neitt frekar. Mér finnst, eins og ég nefndi áðan, ekkert mikið þótt ríkisstjórnin leggist svo lágt, ef svo má að orði komast, að útskýra fyrir Alþingi hvernig hún hyggst ná þeim markmiðum sem að er stefnt, og ég tala nú ekki um þegar verið er að selja verðmæti sem kannski nema milli 40 og 50 milljörðum kr. En það er ekki gert í frv. og ég sakna þess mjög og mér finnst ekkert mikið þó að ríkisstjórnin útskýri þetta frekar.

[17:45]

Í öðru lagi stefnir hún að virkri samkeppni. Hér er ég reyndar að vitna til stefnuyfirlýsingar frá 28. maí 1999. Kannski má segja sem svo að því er varðar virka samkeppni á þessum markaði að komið hafi verið í veg fyrir ákveðinn samruna núna fyrir jólin. Kannski hefur ekki allt gengið eftir hvað varðar þær áætlanir hjá ríkisstjórninni. En það breytir ekki hinu að þetta er eitt af þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hyggst stefna að.

Í þriðja lagi að ríkið fái hámarksverð fyrir sinn hlut. En ekkert af þessum þremur markmiðum er útskýrt í frv. á viðunandi hátt. Reyndar er það varla nefnt. Það eru örfá orð í 4. tölul. á bls. 4 þar sem er aðeins komið inn á það að markmiðið sé að selja almenningi eitthvað í tilboðssölu og leita að kjölfestufjárfestum. Þar með er öll skilgreiningin talin upp á því hvaða hugmyndir eða hvaða upplýsingar ríkisstjórnin hyggst leggja fyrir hið háa Alþingi áður en hið háa Alþingi veitir ríkisstjórninni heimild til sölu á þessum hlutabréfum og mér finnst eins og ég hef sagt nokkrum sinnum í þessum ræðum, allt að því að vera móðgun eða dónaskapur að þessu skuli ekki vera lýst á skilmerkilegri hátt en hér er gert.

Vel má vera að það sé vandséð að lýsa þessu í smáatriðum en fyrr má nú rota en dauðrota í þessum efnum og að þetta skuli útskýrt á hinu háa Alþingi í nokkrum línum finnst mér á engan hátt vera viðunandi.

Þá vil ég einnig nefna, virðulegi forseti, að ég óttast dálítið að þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur um eftirlit og um skipulag með þessum markaði séu þannig úr garði gerðar að við séum að einhverju leyti að fara úr því pólitískt miðstýrða bankaveldi sem hér hefur ríkt um nokkuð langt skeið og ríkir enn og leikþættir um síðustu helgi bera augljósan vott um, við séum kannski að fara úr því án þess að tryggja að hér kunni að koma upp einhvers konar hringamyndanir. Óskaplega lítið virðist gert í því skyni að koma í veg fyrir það. Ég óttast að í stað hins pólitíska miðstýrða veldis sem hér hefur ríkt séum við að fara yfir í annars konar veldi fjármagnseigenda sem taka við hlutverki því sem pólitíkusarnir hafa kannski að einhverju leyti haft áður. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, mér finnst það álíka slæmur hlutur. Þess vegna hef ég á tilfinningunni að Framsfl. hafi kyngt og tekið að einhverju leyti yfir þá hörðu stefnu sem Sjálfstfl. hefur rekið í þessum efnum og ég ímynda mér að forustumenn Sjálfstfl. séu ákveðnir í því nú þegar þessi verðmæti verða seld að þeir lendi ekki í sömu hremmingum og síðast þegar bréf í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins voru seld og þau lentu í höndum manna sem voru ekki Sjálfstfl. þóknanlegir. Ég óttast að þessi stefna Sjálfstfl. hafi verið keypt því verði að Framsfl. fái að deila út einhverjum krónum og aurum hér og þar í því skyni að tryggja sér völd og áhrif eftir næstu kosningar.

Ég óttast, virðulegi forseti, að ástæðan fyrir því að ekki er útskýrt betur en raun ber vitni á hvaða vegferð ríkisstjórnin er sé sú að slíkir hefðbundnir helmingaskiptasamningar liggi fyrir þar sem Sjálfstfl. fær bróðurpartinn og Framsókn fær smávegis til að geta sinnt gæluverkefnum sínum hér og þar um landið. Það er þetta sem ég óttast og af þessu hef ég áhyggjur.

Ég nefndi í andsvari fyrr í dag að það er einfaldlega þannig hvort sem okkur líkar það betur eða verr að ríkissjóður eða ríkisvaldið er ígildi einhvers konar tryggingakerfis að því er varðar fjármálakerfið í landinu. Ég held að Alþingi mundi aldrei horfa upp á að bankaveldið eða bankakerfið yrði fyrir það miklum áföllum að hér kæmi upp staða sem mjög erfitt er að lýsa. Ég held að ríkissjóður verði alltaf einhvers konar baktrygging hvað þetta varðar. Það er skoðun mín að ríkisvaldið eigi miklu frekar að hafa áhrif á þetta kerfi með því að setja almennar leikreglur um það hvernig fjármálastarfsemi skuli sinnt á þessum markaði í stað þess að stunda svona leikþætti, vil ég nefna eins og hæstv. viðskrh. stundaði um helgina þar sem slegist var um hver fékk hvað og hvað var hvers og hver átti að fá áhrifin í bankanum sem er þó verið að selja. Ég held, það er a.m.k. skoðun mín, að sá leikþáttur hafi ekki verið Búnaðarbankanum til framdráttar, það er ég alveg sannfærður um.

Ef menn þekktu ekki til í þessu hefðbundna helmingaskiptakerfi þá get ég vel ímyndað mér að þetta hefði fælt einhverja kaupendur frá bankanum. En þjóðin er vön því að fylgjast með leikþáttum af þessum toga og lætur sér nú orðið, að ég held, fátt um finnast.

Í þessari umræðu hefur komið fram að Samfylkingin leggur á það verulega áherslu að menn gangi hægt um gleðinnar dyr í þessum efnum. Það hefur líka komið fram í umræðunni að Seðlabankinn hefur áhyggjur af viðkvæmu ástandi efnahagsmála og Seðlabankinn hefur af því áhyggjur ef þessu yrði dembt út á markaðinn í einu vetfangi. Það kemur hins vegar fram í frv. og gögnum með því að ætlunin er að vera búinn að selja þessi hlutabréf á næstu tveimur árum en tvö ár eru ekki langur tími. Tvö ár eru ekki langur tími í þessum efnum og þegar verið er að selja annars vegar ríkisfyrirtæki eins og bankana sem hafa verið ríkisfyrirtæki, a.m.k. í meirihlutaeigu ríkisins um langt skeið, upp á tæpa 50 milljarða og Landssímann hugsanlega á annað eins auk þess sem nefna má ýmis minni fyrirtæki eins og Íslenska aðalverktaka og fleira, þá er það alveg klárt að demba út öllum þessum verðmætum á 1--3 árum, skiptir verulegu máli. Það fé sem fer til kaupa á slíkum verðmætum verður ekki notað í annað. Ég held að ríkisstjórnin verði að fara gætilega í þessum efnum og við leggjum það eindregið til. Við leggjum það líka til að menn byrji á því að selja annan bankann og í því skyni hefur Búnaðarbankinn verið nefndur og sjái hvernig sú vegferð tekst til og síðan haldi menn áfram og selji hinn bankann. Það er það viðhorf sem við höfum lagt til.

Þá vil ég enn fremur nefna það, virðulegi forseti, þó það verði að einhverju leyti til umræðu hér á eftir eða í öðru frv. sem hér liggur fyrir að ég vil hvetja eindregið til þess að Samkeppnisstofnun komi miklu meira að þessu, til að mynda að því er varðar eftirlit með kaupum á virkum eignarhlut í þessum bönkum. Ástæðan fyrir því er sú að þar liggur fyrir sérfræðiþekking í þessum efnum. Þar liggur fyrir sérfræðiþekking í þeim efnum hvar, hvenær og hvernig stjórnunar- og eignatengsl séu orðin þess eðlis að þau séu farin að hindra virka samkeppni. Ég vil hvetja hæstv. viðskrh. og meiri hlutann eindregið til að hugleiða mjög hvort ekki megi styrkja eftirlitsþáttinn með þessum markaði vegna þess að ég er sannfærður um að það verður hinum unga fjármagnsmarkaði á Íslandi til framdráttar þar sem hann er að feta sig úr ríkisforsjá yfir í að verða sjálfstæður markaður, og auka traust á honum ef menn mundu tryggja að eftirlitið með þessum þáttum sé í lagi. Það er eins og ég sagði áðan alveg afleitt ef niðurstaða okkar verður sú að við séum með þessu að yfirgefa svona pólitíska rétttrúnaðar- og forsjárhyggju í þessum bankamálum yfir í það að afhenda þetta fáum útvöldum. Það yrði alveg afleitt og mundi sjálfsagt ekki leiða til annars en að Alþingi þyrfti væntanlega að koma að þessum málum aftur og þá væntanlega í líki einhverra björgunarsveita. Það er ég alveg sannfærður um. Þess vegna held ég að það mundi skipta verulegu máli að hæstv. viðskrh. mundi sjá til þess eða a.m.k. leggja því lið að þessir eftirlitsþættir yrðu auknir, enda vil ég segja það líka hér sem skoðun mína að hæstv. viðskrh. hefur staðið sig mjög vel að því er varðar það að koma í gegn samkeppnislögum sem hafa síðan virkilega sýnt sig að mikilvægt var að lögfesta þau á síðasta þingi. Ég hef því fulla trú á því að hæstv. viðskrh. komi til liðs við okkur í þessum tilteknu hugmyndum.

Þá vil ég að lokum nefna þá hugmynd sem Samfylkingin hefur lagt fram og inn í þessa umræðu sem er sú að tiltekinn hluti eins og til að mynda 10% sem hefur verið nefnt í umræðunni gangi til einhvers konar almannavæðingar á hlutafénu og öllum Íslendingum verði úthlutað tilteknum hluta sem vel má setja á kvöð í þágu viðskiptalífsins, það séu settar ákveðnar kvaðir á slíka hluti hvað varðar sölu, eignarhald og annað.

Að lokum, virðulegi forseti, vænti ég þess að hæstv. viðskrh. svari kannski frekar en hún hefur gert hingað til þeim spurningum sem hér hafa verið bornar upp og læt máli mínu lokið.