Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:22:30 (5633)

2001-03-13 18:22:30# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:22]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Stefna Samfylkingarinnar hefur komið skýrt fram í þessari umræðu og ég ætla ekki að eyða stuttu andsvari í hana. Það skal ég gera þegar við ræðum frv. sem kemur á eftir, enda hefði hæstv. ráðherra átt að hlýða á mál mitt og þyrfti þá ekki að spyrja slíkra spurninga.

Hæstv. ráðherra getur haft áhrif á hvort starfsmannavelta muni ráða þarna ferðinni. Hæstv. ráðherra getur líka haft áhrif á það hvort starfsmennirnir fái aðild að bankaráðunum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Mun hún beita sér fyrir því í báðum þessum efnum sem ég er að nefna, þ.e. varðandi starfsmannaveltuna og aðild þeirra að bankaráðum? Ég spyr hæstv. ráðherra einnig: Er hún tilbúin að beita sér fyrir því að skýrslan um stjórnar- og eignatengsl liggi fyrir meðan við erum að fjalla um bankafrumvörpin og frumvörpin verði ekki afgreidd frá þinginu fyrr en skýrslan liggur fyrir? Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að skýrslunni verði hraðað þannig að hún geti legið fyrir fyrr en rétt áður en þingi verður slitið?