Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:28:22 (5637)

2001-03-13 18:28:22# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:28]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. orðaði það þannig að hún skildi það vel að þingmenn Samfylkingarinnar væru komnir í vörn vegna byggðaumræðunnar. Það er hægt að rifja það upp að undanfarin ár hefur verið mikill flótti af landsbyggðinni hingað suður og það verð ég að segja eins og er að ef hæstv. byggðamálaráðherra er ekki í vörn út af því, eða væntanlega í stórsókn ef marka má orð hennar hér, þá veit ég ekki alveg á hvaða vegferð hún er og ég veit ekki heldur í hvaða veröld hún býr. Við hv. þm. Samfylkingarinnar höfum verið að leggja til allt aðrar leiðir, allt aðrar hugmyndir til að mæta þessu. M.a. höfum við lagt til að menn líti á þetta sem eina heild og m.a. höfum við margoft lagt til að landið yrði eitt kjördæmi og menn litu á þetta blessaða land sem eina heild. En hæstv. byggðamálaráðherra, sem í raun og veru hefur verið ábyrg um nokkurt skeið á öllum þessum flótta, bendir á hv. þm. stjórnarandstöðunnar. Það segir meira en mörg orð.