Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:39:14 (5640)

2001-03-13 18:39:14# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það var ekki ætlun mín að taka þátt í þessari umræðu en ég get ekki orða bundist vegna þess hanaslags sem er á milli hæstv. viðskrh. og Samfylkingarinnar vegna þess að ég get ekki betur séð en að Samfylkingin sé samstiga ríkisstjórninni í því að selja bankana og einkavæða þá. Landsbyggðin er dregin inn í umræðuna sem ég held að sé ekki gott að gera á þessum nótum vegna þess að landsbyggðin þarf á allt öðru að halda í dag, jákvæðari og skipulagðari umræðu um hvernig hægt er að koma fjármálum hennar fyrir.

Ég vil árétta stefnu okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Við viljum a.m.k. hafa einn sterkan ríkisbanka í meirihlutaeigu ríkisins og við teljum að með skipulagðri starfsemi innan slíks banka megi vinna að hugarfarsbreytingu gagnvart fjármögnun á landsbyggðinni vegna þess að eins og málum er háttað núna í samfélaginu er engum blöðum um það að fletta að eins og bankakerfið starfar ryður það út af borðinu öllum nýjum verkefnum sem eru sett inn varðandi uppbyggingu úti á landi. Það er tíðarandinn í dag. Hvert sem komið er segja menn: Þetta er vandamálið.

Hverjir hafa síðan lánað í staðbundin verkefni? Jú, þeir sem menn vilja einkavæða líka núna, þ.e. sparisjóðirnir. Vegna uppbyggingar sinnar hafa þeir á síðustu missirum í auknum mæli þjónað viðskiptavinum sínum sem eru þá á starfssvæði þeirra.

Það er alveg út í hött að ætla sér í þessu einkavæðingarferli að stilla málum upp þannig að það eigi síðan að fara að búa til nýjan banka til þess að þjóna landsbyggðinni. Það er vondur kostur. Það er miklu betri kostur að beita pólitísku valdi inni í banka sem er í meirihlutaeigu ríkisins til að breyta um hugarfar gagnvart fjárfestingum. Það er mat margra í viðskiptalífinu að það séu ekki einvörðungu viðskiptaleg sjónarmið sem ráða ferðinni, því miður, eins og tíðarandinn er á peningamarkaði, heldur ráði einfaldlega þau sjónarmið að menn hafi afskrifað uppbyggingu á nýjum sviðum úti á landi að meira eða minna leyti.

Hvar sem maður kemur segja menn í viðskiptalífinu: Bankakerfið þjónar þeim sem eru í gangi og hafa verið í gangi. Bankakerfið hefur mjög lítinn áhuga, eins og ég sagði fyrr, á því sem er nýtt. Þess vegna ættu menn kannski að staldra við núna og sérstaklega vegna þess að menn brydduðu upp á umræðum um stöðu landsbyggðarinnar, ættu menn kannski að staldra við og taka þá umræðu hvernig menn hugsa sér fjármálalega þjónustu við landsbyggðina.

Ég hef miklar áhyggjur af því ef við förum þannig í málin eins og með sparisjóðina, að þeir verði hlutafélagavæddir, í framhaldi af því keyptir upp af stærri einingunum, þá erum við enn þá verr sett. Hvers vegna má ekki skoða þetta í því ljósi hvernig við ætlum að þjóna landinu í heild sinni?

Hv. þm. Jón Bjarnason flutti hér ræðu og talaði um þjónustuskyldu fjármálafyrirtækja við landið allt. Það er ekkert nýtt í viðskiptalífinu að vera með þjónustuskyldu í lögum. Ekkert nýtt. Það eru einkafyrirtæki út um allan heim sem hafa þjónustubundna samninga þannig að menn hafa einhvern strúktúr fyrir sér, eitthvert heildarplan um það hvernig á að þjóna landinu í heild sinni.

En ég vil bara segja þetta. Að fara úr öskunni í eldinn á þennan hátt með í raun og veru ekkert plan í höndunum, einhverja sjóðsmyndun sem við höfum áratugareynslu af, hvar ætla menn að enda það? Af hverju má ekki fara hægar í sakirnar? Við höfum gefið upp boltann með það að selja hugsanlega annan bankann. Við höfum lagt skýra áherslu á það að við viljum hafa ríkisbanka sem er í meirihlutaeign ríkisins, þó svo að stór hluti af þeim banka gæti verið í eign einkaaðila. Þetta er spurning um pólitík innan bankanna. Við erum ekki í það stóru samfélagi. Ætli við vitum það ekki öll sem erum hér inni hvernig kaupin gerast á eyrinni? Við vitum vel að menn eru settir út af borðinu ef þeir eru utan við vissan radíus. Af hverju halda menn t.d. að stórfyrirtæki séu alvarlega að hugsa um að flytja starfsemi inn á hring höfuðborgarsvæðisins? Hver ræður því? Halda menn að fyrirtækin ráði því sjálf? Það eru bankarnir. Það eru fjármálastofnanirnar sem segja hreinlega: Hundruð milljóna uppbygging í einu eða öðru formi, það eru mörg dæmi um slíkt, hún verður ekki einhvers staðar utan við þennan radíus. En fari þau inn fyrir, þá höfum við veðin í lagi. Þannig standa málin. Þá er spurningin: Hver er farinn að stjórna? Hver er farinn að hafa þá heildarsýn sem á að vera? Það er á þessum nótum sem við verðum að ræða málin. Það þýðir ekki að bjóða landsmönnum upp á það að þeim sé sagt að éta það sem úti frýs hvað þetta varðar.

Forstöðumaður fyrir stórfyrirtæki í mínum heimabæ sagði við mig að peningalegt afl fyrirtækisins mundi tvöfaldast til þrefaldast ef það flytti með lögheimili sitt á Austurvöll. Við vitum öll hvernig kaupin gerast á eyrinni. En þetta er að meira og meinna leyti huglægt. Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að vera með peningalega umsýslu fyrir viðkomandi fyrirtæki, þetta er huglægt mat peningakerfisins eins og það vinnur í dag. Og það er vont. (Gripið fram í: Einkavæða.) Það er vont. Einkavæðing skilar engu því ég held að ég geti sagt það með góðri samvisku að það eru allir á sama báti hér.

Ég bið því um það að áður en lengra er haldið í þessum dúr, kannski ómeðvitað, að fara í stofnun nýs banka, sjóðsbanka, þá byrji menn á því að staldra aðeins við og gera sér grein fyrir því hvert þeir ætla að stefna. Það er meginatriði. Ef menn ætla að fara þá leið sem hefur komið fram í umræðunni hvers vegna þá að selja báða bankana? Hvers vegna má ekki eiga banka í meirihlutaeign ríkisins með verulegu hlutafé annarra úti í samfélaginu? Þá færum við hina svokölluðu norsku leið sem er reyndar farin í mörgum öðrum löndum.

Það er þetta sem ég vil fá upp á borðið. Ég fór nú í umræðuna aðallega út af því að peningaleg staða landsbyggðarinnar og fyrirtækjanna þar er svo alvarleg að á því verður að taka. Þetta gildir um einstaklingana líka, veðhæfni. En fyrst og fremst er þetta huglægt. Huglægt mat þeirra sem eru hér og hafa völdin.