Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:47:56 (5641)

2001-03-13 18:47:56# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:47]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki mikið orðið vör við hv. þm. í umræðunum í dag en hann kemur hér í mýflugumynd og heldur því fram að Samfylkingin og ríkisstjórnin séu samstiga í sölu þessara banka, að við stillum okkur upp við hlið ríkisstjórnarinnar. Nú vil ég spyrja hv. þm. því hann hefur greinilega ekki verið hér við umræðurnar í dag:

Samfylkingin vill sem stendur einungis veita heimild til að selja hlut ríkisins í öðrum bankanum en ríkisstjórnin er á móti því. Eru vinstri grænir sammála okkur í því?

Ríkisstjórnin er á móti því að 10% af hlutabréfum ríkisins verði dreift jafnt á milli fjárráða Íslendinga. Geta vinstri grænir hins vegar verið sammála okkur í því?

Við viljum að settar verði hömlur á atkvæðisrétt eigenda í bönkunum. Geta vinstri grænir verið sammála okkur í því? Ríkisstjórnin er á móti því.

Ég spyr líka, af því við viljum setja skorður við eignarhlut stærri fjárfesta en ríkisstjórnin er á móti því. Geta vinstri grænir verið sammála okkur í því?

Við viljum líka tryggja fulla aðild starfsmanna að bankaráðum. Ríkisstjórnin er á móti því. Við erum með því. Geta vinstri grænir verið sammála okkur í því?

Eins og hv. þm. heyrir þá stillum við okkur ekki upp við hliðina á ríkisstjórninni í þessu máli. Við höfum sett skilyrði fyrir sölu á bankanum og viljum eins og aðstæðurnar eru nú bara selja annan bankann. Ég hef spurt um ákveðin mikilvæg atriði og ég trúi ekki öðru en að vinstri grænir stilli sér við hliðina á Samfylkingunni í þeim málum, t.d. varðandi aðild starfsmanna þó ekki væri meira.

Ég frábið mér að vinstri grænir eða fulltrúi þeirra komi hér upp og uppástandi, jafnvel þó þeir hafi ekki einu sinni verið hér í dag, að við stillum okkur upp við hlið stjórnarflokkanna í þessu efni. Við höfum sett margvíslega og þýðingarmikla fyrirvara við þetta mál og ég vona að hv. þm. hafi það sem sannara reynist í þessu efni.