Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:50:07 (5642)

2001-03-13 18:50:07# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:50]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Ég vil fyrst benda hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á að ég hef verið hér í þinghúsinu í allan dag. Ég sat í einn og hálfan tíma sem forseti þingsins yfir ræðum samfylkingarmanna hér. Ég var að lýsa mati mínu á því sem þar kom fram. Ég hlustaði mjög gaumgæfilega. Ég ætla ekki að fara í krossapróf í aðferðafræði hér í ræðustóli Alþingis. Ég sagði að miðað við málflutning samfylkingarmanna þá vilji þeir selja en þó með skilyrðum, eins og hefur komið fram hjá hv. þm. Þetta er því spurning um aðferðafræði.

En við höfum sagt að við værum til viðræðu um að selja annan bankann en við viljum hafa sterkan ríkisbanka. Margir úr röðum Samfylkingarinnar lýstu því yfir við umræðuna að bankastarfseminni í landinu væri best komið í höndum einstaklinga. Það stóð upp úr hverjum manni hér. Það er ekkert sem ég er að búa til.

Aðferðafræði við sölu eða hvernig menn stilla sér upp við hlið ríkisstjórnarinnar í svona málum verður ekki rætt hér í stuttu andsvari.

Meginatriðið er þetta: Við teljum að það sé algjör goðgá að stilla málum þannig upp að sala ríkisbankanna séu kaup á milli flokkanna þess efnis að stofnaður verði sjóður sem verði e.t.v. í framtíðinni, innan örfárra missira, ígildi banka. Það viljum við ekki sjá. Hin leiðin er miklu heppilegri að okkar mati, að eiga stöndugan, myndarlegan ríkisbanka, sem keyrir eftir fjárfestingarstefnu sem gagnast öllu landinu.