Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:59:53 (5648)

2001-03-13 18:59:53# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:59]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil svo gjarnan skilja betur stefnu hv. þm. Vinstri grænna varðandi þennan þjóðbanka og skyldur hans. Ég vil minna á að umhverfið í þessum málum er annað en það var fyrir nokkrum árum síðan. Nú eru einkabankar bráðum allsráðandi á markaðnum. Áður voru þetta ríkisbankarnir og sparisjóðirnir. Hvernig í ósköpunum ætla menn að láta einhvern banka bera allt aðrar skyldur en önnur fjármálafyrirtæki? Hvernig ætla menn sér, eins og hv. þm. sagði áðan, að láta það ganga að pólitískar ákvarðanir í slíkum banka ákveði í hvað lán bankans eigi að fara? Síðan á þessi banki að starfa á markaði með öðrum fjármálafyrirtækjum.

Þetta er ekki hægt. Menn verða að koma inn í nútímann. Þetta er bara gamla sagan og passar ekki inn í munstrið sem búið hefur verið til. Ég vil a.m.k. fá betri útskýringar á því hvernig slíkt eigi að virka. Eins og er finnst mér eiginlega að vinstri grænir ættu þá að styðja hugmyndir Framsfl. um það að setja á þennan sjóð inn í Byggðastofnun og nota hann þar. Það væri þá a.m.k. minni hætta á að unnin yrðu skemmdarverk á fjármálakerfinu í landinu en með því að ætla sér að láta einhvern banka bera þessar skyldur einan og sér.