Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 19:01:43 (5649)

2001-03-13 19:01:43# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[19:01]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Af því hv. þm. Jóhann Ársælsson telur sig vera svona mikið í nútímanum ásamt sínu fólki, þá vil ég spyrja hv. þm. á móti: Telur hann t.d. að sparisjóðirnir sem eru sterkir mjög víða úti um land og, eins og kom fram í ræðu minni, hugsa mjög mikið um viðskiptavini sína, nærviðskiptavini sína, telur hann að þeir sem stjórna þeim bankastofnunum vaði reyk á hverjum degi? Auðvitað vinna menn á bankalegum forsendum. Ég var að tala um hugarfar, peningapólitískt hugarfar sem ég tel að sé á röngu róli í landinu um þessar mundir. Sparisjóðirnir hafa þessa tengingu og þeir eru ekkert feimnir við að segja: Við þjónum okkar fólki á nærsvæði okkar. Og það væri gaman að spyrja hv. þm., nútímalegan samfylkingarmann, hvort hann telji að sparisjóðirnir, sem eru mjög margir með ágætisafkomu og stækkandi á mörgum póstum, kunni ekki peningalega umsýslu?