Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 19:21:52 (5655)

2001-03-13 19:21:52# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[19:21]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé full ástæða til að draga í efa að þetta sé eðlileg leið. Ég tel að eðlilegra væri að Fjármálaeftirlitið fari yfir og skoði eignaraðilana í öllum tilfellum hvað varðar þau fjármálafyrirtæki sem hér um ræðir til að jafnræði verði þá gagnvart þeim sem núna eiga stóran hlut í fyrirtækjum og þeim sem síðar munu ætla sér að eignast stóran hlut í fjármálafyrirtækjum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé full ástæða til þess að ríkið gangi þá á undan með góðu fordæmi og breyti fulltrúafjölda sínum í stjórnum þessara fyrirtækja, geri óvirkan hlut sinn í fyrirtækjunum bara til þess að þær hugmyndir sem þarna eru settar fram verði sem allra fyrst að veruleika, þ.e. að stórir hluthafar geti ekki haft afgerandi áhrif í rekstri þeirra stofnana sem þarna er um að ræða.

Mér finnst satt að segja að ríkið sem er að setja slíkar reglur, eða hæstv. ráðherra sem gengur fram í að setja þessar reglur, eigi að velta því alvarlega fyrir sér hvort ekki sé bara rétt að hið opinbera gangi nú fremst og fari að þeim reglum strax.