Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 19:24:50 (5657)

2001-03-13 19:24:50# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[19:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er tímanna tákn. Þjóðfélag sem byggir á almennum lögum og almennum reglum víkur fyrir þjóðfélagi eftirlitsins. Þetta frv. heitir: Um eftilit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Ég hefði vænst þess að ríkisstjórnin mundi reyna með lagasetningu að tryggja dreifða eignaraðild að fjármálastofnunum, eins og þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafði gert tillögu um á sínum tíma og fengið góðar undirtektir hér á þinginu. Í stað þess að taka þráðinn þar upp hefur hæstv. viðskrh. lagt þetta frv. fram, þar sem Fjármálaeftirlitinu verði falið að sinna aðhalds- og eftirlitshlutverki og eftir því sem ég fæ best séð við fyrstu sýn byggir það á óljósum og harla óhlutlægum reglum.

Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort hún sjái ekki í því ákveðnar hættur að stórir eignaraðilar, hugsanlega sömu aðilar og eru að sölsa undir sig drjúgan hluta af íslensku atvinnulífi, nái undirtökunum í þessum helstu fjármálastofnunum landsins. Og hvort hæstv. ráðherra er ekki reiðubúin að skoða aðrar og virkari leiðir til þess að tryggja með lagasetningu dreifða eignaraðild að þessum fjármálastofnunum í þeim anda sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur lagt til hér á þinginu.