Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 19:30:43 (5660)

2001-03-13 19:30:43# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[19:30]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og staðan er, svo ég endurtaki það, er Noregur til athugunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA út af ákvæðum í lögum sem kveða á um svokallaða dreifða eignaraðild. Hv. þm. sagði eins og satt er að hér er frv. til meðferðar í þinginu sem þeir í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hafa lagt fram og það hefur fengið góðar undirtektir. Og það er rétt --- ég tjáði mig í þeirri umræðu og sagði að ég vildi ekki hafna þessari aðferð, en hygðist nú skoða málið betur. Síðan kemur þetta í ljós og a.m.k. meðan þessi mál eru til meðferðar hjá Eftirlitsstofnuninni þá getum við ekki annað en tekið þetta alvarlega.

Þegar hv. þm. spyr mig hvort ég hafi aldrei mótmælt því að undirgangast eitthvað sem þetta, þá reyndar var það þannig að með því að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu þá undirgengumst við hið frjálsa flæði fjármagns. Það er það ákvæði sem þarna kemur til. Það er ekki einhver ný tilskipun heldur er þetta ákvæði samningsins þó þetta sé fyrst núna að koma fram í sambandi við Norðmenn. Það er því ekki hægt að tala um þetta sem eitthvert fljótræði af hálfu stjórnvalda í dag. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir og ég vil hvetja hv. þm. til að kynna sér vel þá skýrslu sem er birt sem fylgiskjal með frv. og fjallar um þá kosti sem eru til staðar í sambandi við meðferð mála sem þessara og þeir eru fjórir. Niðurstaða okkar í ráðuneytinu var að fara þá leið sem ég hef mælt fyrir.