Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 21:02:39 (5672)

2001-03-13 21:02:39# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[21:02]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sáttur við allt sem ríkisbankarnir hafa gert í tímans rás. Ég hef ekki síður gagnrýnt það sem fram fer í fjármálakerfinu nú um stundir. Með háum arðsemiskröfum sem settar hafa verið fram og himinháum vöxtum hafa að mínum dómi verið færðir allt of miklir fjármunir frá heimilum og fyrirtækjum yfir til fjármálageirans. Ég held að þetta geti haft slæmar efnahagslegar afleiðingar áður en langt um líður. Ég óttast þetta.

Hv. þm. bendir réttilega á hlut lífeyrissjóðanna í íslensku fjármálalífi, að hann sé að aukast. Það er alveg rétt og mér finnst að þeir þurfi að axla samfélagslegar skyldur sínar. Ég hef verið talsmaður þess að þeir geri það.

Ég vil í lokin leiðrétta eitt sem fram kom í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals, þ.e. að ég hafi talað um ljóta og illa aðila. Ég talaði ekki um ljóta og illa aðila. Ég sagði að samþjöppun á fjármagni og völdum í atvinnulífinu einkenndi efnahagsþróunina hér á landi. Í framhaldi af því spurði ég hv. þm. hvort hann sæi engar hættu í því fólgna að sömu aðilar og þar væru að ná undirtökum næðu jafnframt tökum á fjármálalífinu, hvort það væri ekki líklegt til að draga úr samkeppni sem ég veit að hv. þm. vill leggja mikið á sig við að tryggja og varðveita. Jafnframt hefði ég viljað spyrja um álit hans á frv. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og sá sem hér stendur lögðu fram um dreifða eignaraðild fjármálastofnana. Ég man ekki betur en hv. þm. Pétur H. Blöndal tæki vel í það frv. þegar það var lagt fram á sínum tíma.