Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 21:04:52 (5673)

2001-03-13 21:04:52# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[21:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi, varðandi samþjöppun valds og efnahagslegt vald, er ríkið langstærst á þessu sviði og hefur óskaplega mikil völd. Ég nefni bara Landsvirkjun sem ríkið á helminginn í og Reykjavíkurborg 45%. Þar eru óskapleg völd saman komin og allur orkugeirinn er þessu marki brenndur. Hann er í opinberri eigu. Ég hugsa að á undanförnum árum hafi valdinu ekki verið þjappað saman heldur hafi því verið dreift. Nú eru komnir það margir aðilar eins og ég gat um, smokkfiskurinn, kolkrabbinn, hákarlinn, lífeyrissjóðirnir og ríkið, að valdið hefur dreifst þar sem svo margir keppa. (ÖJ: Landsmenn eru 282.000.) Landsmenn eiga ekki neitt í Landsbankanum, herra forseti. Jón Jónsson á Suðureyri getur ekki labbað inn í Landsbankann og náð í stólinn sinn, skrifborðið sitt eða þúsundkallinn sem hann á þar, ekki aldeilis. Hann hefur ekkert með það að gera. Það er sá sem fer með valdið sem ræður, þ.e. hæstv. viðskrh.

Ég hef því ekki áhyggjur af þessu. Mér finnst að frekar hafi verið unnið að því að dreifa valdi og með sölu á ríkisbönkunum er einmitt verið að dreifa valdi. Þeir voru áður í eigu ríkisins, eins aðila á markaðnum sem heitir ríkisstjórn Íslands. Það er verið að dreifa því valdi þannig að mér finnst þetta vera góð þróun.