Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 21:10:17 (5676)

2001-03-13 21:10:17# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[21:10]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er auðséð, varðandi það síðasta sem fram kom hjá hv. þm., að hér virðist hafa farið fram einhvers konar einleikur hjá hæstv. viðskrh. og formanni þingflokks Framsfl., að ætla að verja verulegum hluta af andvirði bankanna til Byggðastofnunar. Það er auðheyrt hjá hv. þm. að þetta hefur ekki verið rætt í þingflokkunum, a.m.k. ekki þingflokki sjálfstæðismanna. Þetta er því athyglisvert innlegg í umræðuna.

Varðandi virka eignarhlutann þá gerði ég mér ljóst að þingmaðurinn er því ekki fylgjandi að setja þessa girðingu. Það sem ég var að reyna að fá fram hjá hv. þm. var hvort, ef á annað borð á að setja slíka girðingu og menn hafa það að markmiði að þetta sé virkur eignarhluti svo að þetta ákvæði bíti eins og ráðherrann ætlast til, það sé þá ekki rétt að hafa þetta hlutfall lægra til að það bíti. Ég höfða þar til þess að hv. þm. er mikill stærðfræðingur og þekkir vel til fjármála- og verðbréfamarkaðarins. Ef ákvæðið á að bíta ætti þá ekki hlutfallið að vera lægra vegna þess að hv. þm. sagði réttilega að virkur eignarhluti gæti verið 9%, 8% eða 9,5%, allt eftir því hve margir eigendur viðkomandi fyrirtækis eru? Ég var að reyna að fá aðstoð hv. þm. við að sannfæra hæstv. ráðherra um að þetta væri ekki rétt, að staðnæmast við 10% ef ráðherrann ætlaði að ná því markmiði sem hún setur með þessu frv.