Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 21:13:51 (5678)

2001-03-13 21:13:51# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[21:13]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég gerði mér grein fyrir því að þetta mál vekti spurningar vegna þess að í því er í sjálfu sér fólgin ný hugsun. Ég tel að þetta sé dæmigert mál til að skoða vel í hv. nefnd. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir situr í efh.- og viðskn. og ég efast ekki um að hún fái svör við mörgum spurningum þar. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki svör við öllum spurningum varðandi þetta mál en ég tel hins vegar að það sé rétt að leggja til að fara þessa leið fremur en einhverja af hinum þremur leiðunum sem bryddað er upp á og fjallað um í fskj. með frv.

[21:15]

Hv. þm. kallaði þetta virðingarverða viðleitni. Mér fannst það heilmikið hól. Hún talaði um Samkeppnisstofnun, m.a. hvort hún ætti ekki að hafa þarna meira hlutverk. Eins og hv. þm. veit er samkvæmt lögum óheimilt að misnota markaðsráðandi stöðu. Það er fyrir fram bannað og þess vegna tel ég að það ákvæði geti átt við í málum tengdum því sem hér er til umfjöllunar.

Varðandi það að færa mörkin niður í 5% í stað 10% þá mundi það augljóslega kosta ansi mikla viðbótarvinnu. Ég vil líka að það komi fram að tilskipunin sem þetta mál byggist að hluta á eða að verulegu leyti hljóðar upp á 10%. Ég reikna með að þetta sé eitt af því sem gæti komið til umfjöllunar í nefndinni.

Hv. þm. ræddi um skýrsluna um eignatengsl og stjórnunartengsl og ég vil láta koma fram að það er ekki þannig, eins og hún ýjaði að, að eitthvað annað hafi ráðið afstöðu minni en það að ég tel að Samkeppnisstofnun ráði illa við að flýta þessari vinnu, m.a. vegna annarra verkefna sem stofnunin er að vinna að, takmarkaðs fjármagns og takmarkaðs mannafla. Ein millj. er kannski ekki stór á milli vina en engu að síður er hún ekki gripin upp af götunni. Við gerum miklar kröfur um að forustumenn stofnana okkar fari ekki fram úr fjárlögum. Ég hef ekki nýjustu upplýsingar um hvar málið stendur en ég skildi það svo að hægt yrði að standa við það loforð, sem ég tel mig hafa gefið, að hún verði tilbúin fyrir vorið. Ég skal hins vegar í framhaldi af þessari umræðu grennslast fyrir um hvort þarna séu einhverjir möguleikar.

Fjármálaeftirlitið er að fást við og reyna að átta sig á hvaða leið sé best hvað varðar eiginfjárhlutfallið. Við erum ekkert eyland í fjármálaheiminum og fylgjumst að sjálfsögðu vel með því sem gerist í öðrum löndum. Þar að auki erum við verulega háð því sem gerist á hinu Evrópska efnahagssvæði í þessum efnum eins og öðrum.

Varðandi ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar þá kom þar fram ýmislegt athyglisvert og eins í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Í ljósi þess vil ég segja að auðvitað er hægt að kæra það sem Fjármálaeftirlitið kveður upp úr um. Þess vegna er kannski ekki ástæða til að gera svo mikið úr valdinu sem sú stofnun fær með lögunum. Auðvitað hlýtur það að skipta máli.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson talaði um hugsanlega takmörkun á atkvæðisrétti. Á bls. 36 í grg. með frv. er kafli um það ákvæði. Ég held að hann sé of langur til að ég lesi hann en ég bendi á þann kafla. Í sambandi við það sem kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal vil ég nefna að á bls. 27 í grg. kemur fram upptalning á því hvaða önnur lönd eru að fara og hafa farið þá leið sem við leggjum hér til. Ég tel því ekki að það sem hv. þm. heldur fram, um það að við séum sérstaklega að hrekja fjárfesta frá Íslandi með þessari lagasetningu, eigi við rök að styðjast. Þetta er einfaldlega regla sem aðrar þjóðir hafa tekið upp og virðist nokkuð almenn að verða. Ég veit ekki hvar hv. þm. ætti best heima miðað við skoðanir hans en það er ekki í þeim löndum sem ég þekki best til.

Ég held að ég sleppi nokkurn veginn með þessi svör. Það er áliðið kvölds en ég þakka fyrir umræðuna. Mér finnst ánægjulegt að hv. þm. séu tilbúnir og í mikilli alvöru að skoða þessa leið með jákvæðu hugarfari. Ég veit a.m.k. ekki um aðra leið betri.