Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 21:24:20 (5681)

2001-03-13 21:24:20# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[21:24]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra veldur mér nokkrum vonbrigðum með andsvari sínu. Ég tók það svo að hæstv. ráðherra væri tilbúin að skoða einhverja lækkun á þessum virka eignarhlut. Það veldur mér vissulega vonbrigðum ef svo er ekki.

Herra forseti. Við sem erum í efh.- og viðskn. og eigum að reyna að stýra þessu máli sæmilega farsællega aftur inn í þingið erum ekki að biðja um stóra greiða. Við óskum eftir því að gerð skýrslu um stjórnunar- og eignatengsl verði flýtt. Mér fannst í fyrri ræðu hæstv. ráðherra að hún væri jákvæðari en í síðari ræðu sinni og vona að embættismaðurinn hér í hliðarherberginu hafi ekki haft vond áhrif á ráðherrann í því efni. Þetta er náttúrlega sá embættismaður sem mæða mun á í nefndarstörfunum og þarf að sitja með okkur fundi um þessi efni. Þar verður hamrað á því að þessi skýrsla komi fram. Við erum að tala um litla fjármuni í þessu sambandi en mikilvæga fyrir það málefni sem við erum að fjalla um.