Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 21:29:42 (5684)

2001-03-13 21:29:42# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[21:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. segir rangt að gefa markaðnum of miklar upplýsingar. En hvað með upplýsingar til löggjafans þannig að unnt sé að taka þátt í umræðu um efnahagslegar forsendur þessarar sölu? Hér er verið að tala um tilfærslu á tugum milljarða kr., 40 milljörðum í ríkisbönkunum einum. Síðan er rætt um einkavæðingu og sölu á öðrum stofnunum, Landssímanum og öðrum stofnunum. Finnst hæstv. viðskrh. virkilega ekki ástæða til að gefa Alþingi upplýsingar um það þannig að fram geti farið upplýst umræða um efnahagslegar forsendur þessarar sölu?

Varðandi Evrópusambandið þá finnst mér hæstv. viðskrh. heldur vera að draga í land. Ég heyrði ekki betur en að fyrr í máli hennar kæmi fram að hæstv. viðskrh. vildi láta fara fram frekari könnun á því hvort frv. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um dreifða eignaraðild stæðist samþykktir og tilskipanir Evrópusambandsins. Nú finnst mér hæstv. ráðherra hins vegar draga í land. Að vísu var talað um að menn gætu kært úrskurði ESA. Þetta er gamalkunn regla sem Framsfl. hefur fylgt í seinni tíð. Þetta var sú ábendng sem öryrkjar fengu á sínum tíma þegar þeir voru óánægðir með úrskurð ríkisstjórnarinnar í sínum málum. Þá steig ágætur hæstv. ráðherra Framsfl. í pontu og sagði: ,,Þið skuluð bara kæra.`` Ég veit ekki hvort ganga á út frá þeirri reglu í þessu máli einnig.