Viðbrögð við gin- og klaufaveiki

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 13:31:48 (5690)

2001-03-14 13:31:48# 126. lþ. 88.91 fundur 376#B viðbrögð við gin- og klaufaveiki# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég leyfi mér að kveðja mér hljóðs um störf þingsins vegna þeirra miklu og alvarlegu stöðu sem er varðandi útbreiðslu á sjúkdómnum gin- og klaufaveiki víða um heim. Kallaðir hafa verið saman neyðarfundir í mörgum löndum, neyðarfundir ríkisstjórna og þjóðþinga til þess að ráðgast um hvernig við megi bregðast, hvernig megi hefta útbreiðslu veikinnar.

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur varað við hættunni af gin- og klaufaveiki og segir að sjúkdómurinn geti breiðst út um allan heim og stofnunin skorar á allar þjóðir að gera strangar ráðstafanir.

Herra forseti. Hér er mikið alvörumál á ferðinni og því leyfi ég mér að spyrja: Mun þetta mál koma til kasta þingsins eins og það gerir víða í löndum út um allan heim og til hvaða ráðstafana hefur ríkisstjórn Íslands gripið til að hindra að þessi sjúkdómur geti borist hingað til lands?

Herra forseti. Ég tel að hér sé svo alvarlegt mál á ferðinni að það sé nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga fái að fylgjast með og verði þátttakandi í hvernig megi verjast því að sjúkdómurinn berist hingað til lands.