Viðbrögð við gin- og klaufaveiki

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 13:33:29 (5691)

2001-03-14 13:33:29# 126. lþ. 88.91 fundur 376#B viðbrögð við gin- og klaufaveiki# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 126. lþ.

[13:33]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi í dag. Þetta er stórmál og varðar raunar heimsbyggðina alla og mikið og stórt mál fyrir okkur Íslendinga að verjast og gera strangar kröfur.

Auðvitað hafa verið haldnir margir neyðarfundir í ráðuneyti mínu. Málið hefur hvað eftir annað borið á góma á ríkisstjórnarfundum en mér finnst mjög mikilvægt að þingið fylgist með málinu, bæði hvað varðar gin- og klaufaveiki svo og kúariðu.

Ég vil í upphafi segja frá því að það var ákveðið í morgun að í dag færi auglýsing frá yfirdýralækni svohljóðandi:

,,Vegna gin- og klaufaveiki sem greinst hefur í Stóra-Bretlandi og Frakklandi hefur yfirdýralæknir ákveðið að ekki verði mælt með innflutningi frá löndum Evrópusambandsins eða EFTA, eða frá öðrum löndum þar sem sjúkdómurinn hefur greinst, á vörum sem smitefnið getur borist með og falla undir stafliði a) og b) í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.``

Það þýðir sem sé að innflutningur verður ekki heimilaður á hráu kjöti eða ýmsum vörum sem smithætta er af frá Evrópusambandinu. Svo þekkja allir að margar fleiri aðgerðir eru í gangi. Það eru komnar mottur með sótthreinsilegi í flugstöðina í Keflavík og á flugstöðvar úti um land og allt gert til að fræða, bæklingar gefnir í flugvélar. Það hafa verið umræður við tollyfirvöld varðandi skip sem koma til landsins og flutninga, um að fyllsta öryggis sé gætt þar. Það er því mikil vinna í gangi hjá landbrn. og embætti yfirdýralæknis til að verjast þessum válega gesti. Ég heiti á alla Íslendinga að standa fast með okkur í þessari miklu baráttu.