Viðbrögð við gin- og klaufaveiki

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 13:44:07 (5697)

2001-03-14 13:44:07# 126. lþ. 88.91 fundur 376#B viðbrögð við gin- og klaufaveiki# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 126. lþ.

[13:44]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég bið þingheim og landsmenn alla að afsaka það gáleysistal sem mér finnst vera hjá sumum þingmönnum gagnvart þessu máli. Þjóðþing landa út um allan heim, ráðherrar, það eru neyðarfundir í ríkisstjórnum, eru að fjalla um þetta. Það koma hvatningarorð og tilskipun hálfgerð frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna um að grípa til aðgerða og þeir hv. þm. sem telja að hægt sé að segja að þetta komi þinginu ekki við, gera sér ekki grein fyrir alvöru þessa máls og ættu að fá um það leiðsögn og kennslu, herra forseti. Þetta er alvörumál og fjöldi ríkja er nú að loka fyrir allan innflutning á kjöti, ekki bara frá Evrópusambandslöndunum sem ég vildi gjarnan fá að heyra hjá hæstv. ráðherra að væri þegar búið að gera. Veikin er komin upp í Argentínu og samkvæmt þeim fréttum sem Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna sendir nú út segir hún að ekkert land geti lýst sig örugglega frítt við veikina. Hún getur breiðst út um allan heim. Þess vegna er afar mikilvægt að við hér séum ekki að draga það að grípa til allra þeirra ströngustu ráðstafana sem við getum gert til að hindra það að veikin berist hingað til landsins og það er ekkert gáleysistal og það yrði eitt af stærri málum sem kæmi fyrir þingið ef þetta bærist inn í landið.

Ég vil biðja hv. þm. að gera sér í alvöru grein fyrir því hvað þeir eru að fjalla um.