Innflutningur hvalaafurða

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 13:53:23 (5700)

2001-03-14 13:53:23# 126. lþ. 89.1 fundur 421. mál: #A innflutningur hvalaafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Vorið 1999 var samþykkt á Alþingi að hefja hvalveiðar. Ekki hafa þær veiðar þó enn hafist og er ein af ástæðum þess talin sú að Japansmarkaður hefur virst okkur lokaður, a.m.k. meðan við stæðum utan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Norðmenn ákváðu hins vegar í ársbyrjun að leyfa útflutning á hvalaafurðum og þeir eru til sem töldu að þá væri því ekkert til fyrirstöðu að við hæfum einnig hvalveiðar. En staða Norðmanna er allt önnur en okkar. Bæði mótmæltu þeir banninu við hvalveiðum á sínum tíma og eru auk þess í Alþjóðahvalveiðiráðinu. En við hljótum þó að horfa til þess hvernig Norðmönnum gengur við sinn útflutning því á því geta möguleikar okkar oltið til að hefja hvalveiðar að nýju.

Japansmarkaður hefur enn ekki verið opnaður Norðmönnum og það var, herra forseti, afar athyglisverð frétt í Morgunblaðinu í janúar sl. um viðbrögð japanskra neytenda við hugsanlegum innflutningi á hvalaafurðum frá Noregi. Þeir hafa upplýsingar um það að hvalkjötið en þó einkum hvalspikið sé mengað díoxíni og PCB og frábiðja sér slíkan varning. Útskýringar ráðgjafa norsku ríkisstjórnarinnar á þessum viðbrögðum eru þær að japanskir neytendur séu einfaldlega undir áhrifum samtaka sem séu andvíg hvalveiðum. Japönsk stjórnvöld hafa ekki tekið ákvörðun um hvort þau leyfa þennan innflutning en eru greinilega undir þrýstingi heima fyrir um að gera það ekki.

Herra forseti. Þetta eru merkilegar upplýsingar fyrir okkur Íslendinga sem hljótum að fylgjast grannt með því hvaða skilyrði Japanir setja fyrir innflutningi hvalaafurða og þá í leiðinni hvernig það kæmi út fyrir okkur efnahagslega að taka upp hvalveiðar að nýju. Spurningin er líka sú hvort við ætlum að sýna Norðmönnum þann stuðning sem við megum ef þeir gætu orðið sá brimbrjótur sem þarf varðandi útflutning hvalaafurða til Japans. Það hlýtur því að skipta máli fyrir framhald og vinnslu þeirrar ákvörðunar Alþingis að hefja hvalveiðar hvernig við bregðumst við vilja Norðmanna til útflutnings. Ég hef því beint eftirfarandi spurningum til hæstv. landbrh.:

1. Hefur verið leitað eftir því að fá að flytja inn hvalaafurðir frá Noregi eftir að þar var ákveðið að leyfa útflutning?

2. Er vilji fyrir því hjá stjórnvöldum að heimila slíkan innflutning?