Innflutningur hvalaafurða

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 13:58:50 (5703)

2001-03-14 13:58:50# 126. lþ. 89.1 fundur 421. mál: #A innflutningur hvalaafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Það er orðið nokkuð langt síðan þessi fyrirspurn var lögð fyrir á Alþingi og henni var fyrst beint til hæstv. viðskrh. Það kom síðar í ljós að fyrirspurnin átti heima hjá hæstv. landbrh. og því kemur það í hans hlut að svara, væntanlega fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, herra forseti, vegna þess að ég taldi að hér væri mál þeirrar gerðar á ferðinni að það væri ekki bara spurning um smekk landbrh. heldur hvort Íslendingum og þá ráðherrum, stjórnvöldum, væri einhver alvara með því að samþykkja að hefja hér hvalveiðar því að ég hef staðið í þeirri meiningu vegna þess að fram hefur komið að til þess að við gætum hafið hvalveiðar þyrftum við að geta flutt út. Og þá er spurningin: Ætlum við þá ekki að styðja frændur okkar Norðmenn nú, þegar þeir hafa ákveðið að hefja útflutning með því að lýsa yfir einhverjum vilja í þá veru að við séum þá tilbúin að flytja það inn eða á bara að afgreiða málið á þeim forsendum að landbrh. telur, svona persónulega, að annað kjöt sé betra? Er þetta öll pólitíkin sem sýnd er í málinu? Er þetta alvaran sem fylgir ,,ákvörðun`` stjórnvalda um að hefja hvalveiðar að nýju?

Herra forseti. Ég lít svo á að hér sé á ferðinni stórpólitískt mál. Það er búið að ákveða að hefja hvalveiðar. Sú ákvörðun hefur nú staðið í u.þ.b. tvö ár. Hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála segir okkur reglulega að verið sé að vinna í málinu. Mér finnst þau svör sem ég hef fengið í dag ekki sannfærandi hvað það varðar.