Lög um vernd og nýtingu erfðaauðlinda

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:21:21 (5713)

2001-03-14 14:21:21# 126. lþ. 89.3 fundur 464. mál: #A lög um vernd og nýtingu erfðaauðlinda# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Eitt af þremur meginmarkmiðum Ríó-samningsins um líffræðilega fjölbreytni er að tryggja réttmæta skiptingu á þeim hagnaði sem hlýst af nýtingu erfðaauðlinda. Í samningnum er staðfest að erfðaauðlindir eru í forsjá þjóðríkja og háðar landslögum þeirra. Einnig er kveðið á um að hvert ríki skuli tryggja með lögum eða öðrum stjórnvaldsaðgerðum aðgang að erfðaauðlindum og nýtingu þeirra svo framarlega sem slík starfsemi stangist ekki á við markmið samningsins. Með sama hætti ber að tryggja réttmæta skiptingu á afrakstrinum sem fæst af rannsóknum á þeim og hagnýtingu.

Íslendingar eru fullgildir aðilar að Ríó-samningnum og hafa tekið á sig ábyrgð á að koma af stað og fylgja eftir aðgerðum sem stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu erfðaauðlinda. Nokkur skref hafa verið stigin og þar á meðal voru sett ákvæði í lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, sem taka til rannsókna og nýtingar á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum en jafnframt er tekið fram að þessi ákvæði skuli endurskoðuð fyrir 1. janúar 2001. Miðað við það þá væntu menn þess að heildstæð löggjöf um vernd og nýtingu erfðaauðlinda lægi fyrir en sá frestur er nú liðinn og enn hefur ekkert slíkt frv. birst.

Hveraörverur og erfðaefni þeirra er aðeins hluti af þeim erfðaauðlindum sem við eigum og ber skylda til að vernda og nýta á sjálfbæran hátt. Margvísleg verðmæti eru fólgin í erfðaefni hinnar villtu náttúru landsins og erfðaauðlindum í landbúnaði eins og nýleg dæmi sýna. Hér á landi nýtum við innlendar erfðaauðlindir í sauðfjárrækt, hrossarækt og nautgriparækt þar sem byggt er á gömlum landnámskynjum sem okkur ber að vernda. Málið lýtur þó ekki aðeins að líftækni og afrakstri hennar. Það nær einnig til inn- og útflutnings á fósturvísum kúa, hrossa og sauðfjár. Hætta er talin á erfðamengun villtra laxastofna vegna innflutnings á norskum stofnum til fiskeldis. Innfluttar plöntur geta valdið óæskilegum breytingum á erfðaefni í villtri náttúru landsins og þannig mætti áfram telja.

Það er orðið brýnt að setja heildarlög um aðgang að erfðaauðlindum landsins, vernd þeirra og nýtingu sem tryggja réttmæta skiptingu á afrakstri þeirra, bæði beinum og afleiddum.

Nú eru meira en sex ár liðin frá því að Ísland gerðist fullgildur aðili að Ríó-samningnum um líffræðilega fjölbreytni og því spyr ég hæstv. umhvrh.:

Hyggst ráðherra leggja fram frumvarp að heildstæðri löggjöf um vernd og nýtingu erfðaauðlinda á grundvelli Ríó-samningsins um líffræðilega fjölbreytni og ef svo er, hvenær?