Lög um vernd og nýtingu erfðaauðlinda

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:29:30 (5716)

2001-03-14 14:29:30# 126. lþ. 89.3 fundur 464. mál: #A lög um vernd og nýtingu erfðaauðlinda# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þó að ég hafi vissulega orðið fyrir verulegum vonbrigðum. Þegar þau lög voru samþykkt sem ég nefndi í upphafi og þau ákvæði sem sett voru inn sem varða hveraörverurnar, þá kom mjög sterkt fram í þeirri umræðu hjá þáv. hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, formanni iðnn. og frsm. nál., að þetta endurskoðunarákvæði sem væri miðað við 1. jan. 2002 væri sett þarna inn vegna þess að mikil nauðsyn væri á heildstæðri löggjöf um vernd og nýtingu lífrænna verðmæta í náttúru Íslands og þess vegna hefði meiri hlutinn sett inn þetta ákvæði.

[14:30]

Hæstv. ráðherra nefndi líka að verkaskiptingin væri þannig að í raun og veru væri annars vegar verið að ræða um nýtingu og hins vegar um vernd og það félli undir iðnrn. og umhvrn. En það er ekki þannig. Stór hluti þessara mála er núna hjá landbrn., það er ekki bara iðnrn. sem kemur að lagasetningu í þessum efnum, heldur landbrn. Ég lagði þessa fyrirspurn fram, virðulegi forseti, vegna þess að mér brá í brún fyrir stuttu þegar verið var að ræða við hæstv. landbrh. um hugsanlegan útflutning á sæði og fósturvísum úr íslenska hestinum. Þá sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta, ,,að spurning væri hvort þetta væri álíka átakamál og þegar graðhestar eða kynbótagripir voru fluttir út, um það deildu menn lengi. En ég legg bara áherslu á að hestamenn og atvinnugreinin sjálf móti sína stefnu.`` Ef það er þannig varðandi þessa löggjöf að atvinnugreinin og hestamennirnir sjálfir eigi að fara að standa í því að móta heildstæða löggjöf eða heildstæðar reglur fyrir íslenska þjóðfélagið varðandi þennan mikilvæga málaflokk þá erum við verr sett með þessa ríkisstjórn en ég þó hélt.